Líklega hafa bæði hinn varanlegi varaþingmaður Mörður Árnason og íslenskir skattgreiðendur varpað öndinni léttar þegar úrslit lágu fyrir í söngvakeppni evrópskra ríkisútvarpa í gærkvöldi. Hinn ágæti söngflokkur með alíslenska nafninu, Two Tricky, skoraði að vísu einu stigi meira en íslenska landsliðið í knattspyrnu gerði á sama velli í frægum leik gegn Dönum árið 1968 en vermdi engu að síður botnsætið ásamt norsku bandi. Spilar þar margt inn í, aðallega þó samsæri annarra þjóða gegn hinum ástsæla lagahöfundi, Einari Kl. Bárðarsyni. Þjóða sem alltaf hafa séð ofsjónum yfir verðskulduðu gengi Skítamórals.
„Eins og hugsjónamanni á borð við Mörð sæmir skipti hann um skoðun þegar nokkrir listamenn gerðu hróp að honum fyrir vikið.“ |
Mörður Árnason hafði eins og menn muna ákveðnar skoðanir á því hvort syngja ætti íslenska lagið á íslensku eða ensku og hafði aðstöðu til að hafa áhrif á það með setu sinni í útvarpsráði Ríkisútvarpsins. Eins og hugsjónamanni á borð við Mörð sæmir skipti hann um skoðun þegar nokkrir listamenn gerðu hróp að honum fyrir vikið. Því varð úr að lagið var sungið á ensku. Þetta hefur líklega engu breytt um úrslitin í keppninni en ef Mörður hefði staðið fast á sínu og lagið verið sungið á íslensku hefði ekki staðið á skýringum á hrakförunum: „Það þýðir einfaldlega ekki að syngja lög á íslensku í þessari keppni.“ Og sökudólgurinn hefði verið Nörður Árnason varaþingmaður. Jafnvel hefði getað dregið úr annálaðri lýðhylli Marðar, sem hingað til hefur tryggt honum varaþingmannssæti, kosningar eftir kosningar.
Ef til væri félag skattgreiðenda hér á landi myndi það vafalaust gera félagana í Two Tricky að heiðursfélögum. Ekki er nóg að þeir hafi sparað skattgreiðendum kostnað við að halda undankeppni hér heima og senda sigursveitina til Tallinn á næsta ári heldur búa skattgreiðendur ekki við þá áhættu næsta árið að þurfa ef til vill að halda þessa keppni. Keppni af þessu tagi yrði vafalaust að halda af miklum metnaði og stórhug og enginn erlendur maður mætti sjá að keppnishaldarinn er með smæstu þjóðum. Að vísu kemur á móti að af keppnishaldinu yrði gríðarleg landkynning sem hafa myndi í för með sér ógurlegar tekjur af ferðamönnum, því eins og kunnugt er þá flykkjast ferðamenn í stórum stíl til þeirra landa sem halda Evróvisjón keppni. Og á næsta ári fara allir til Eistlands.
Þetta leiðir hugann að öðru máli sem tengist tónlist og skattgreiðendum. Ef svo illa tekst einhvern tímann til að Ríkisútvarpið stæði frammi fyrir því að „þurfa“ að halda söngvakeppnina sjálfa þá má fullyrða að það óhapp yrði notað sem enn ein delluröksemdin fyrir því að skattgreiðendur reistu risavaxna glæsihöll svo nokkrir áhugamenn um tiltekna gerð klassískrar tónlistar gætu stundað áhugamál sitt við fullkomnustu mögulegu aðstæður. Reyndar er hættan á slíkri framkvæmd þegar fyrir hendi. Í miðjum allsherjarsöng um „þenslu“ og nauðsyn sparnaðar í opinberum rekstri hefur þröngum hagsmunahópi tekist að sannfæra menntamálaráðherra og borgarstjórann í Reykjavík (ekki sami maðurinn – ekki enn) um að varið skuli nokkur þúsund milljónum króna af fé almennings í sérstakt tónlistarhús þótt hvað eftir annað komi fram ánægja með tónleika sem haldnir eru í Tónlistarhúsinu í Kópavogi, Háskólabíói, Gerðubergi, Ými, Laugardalshöll, Langholtskirkju, Hallgrímskirkju og miklu víðar. Þetta kemur ekki á óvart eftir að menntamálaráðherra skipaði formann Samtaka um byggingu tónlistarhúss sem formann nefndar sem mat þörfina fyrir tónlistarhús. Sami maður var einnig gerður verkefnisstjóri við gerð nýtingar- og hagkvæmnismats fyrir tónlistarhúsið. Stuðningsmenn hússins vita líklega sem er að þeir geta beitt hvaða aðferðum sem vera skal. Flestir stjórnmálamenn ofmeta fjölda og styrk hins sjálfhverfa menningarliðs og þora því ekki að andmæla því. Nú, og allir vita að um þessar mundir eiga skattgreiðendur sér engrar hjálpar að vænta úr fjármálaráðuneytinu.