Allir þurfa nú umboðsmann. Nema þá helst þeir sem þurfa talsmann. Fyrir Alþingi liggur nú tillaga til þingsályktunar um talsmann útlendinga á Íslandi. Tillöguna flytja nokkrir valinkunnir þingmenn Samfylkingarinnar með Guðrúnu Ögmundsdóttur fremsta í flokki. Í greinargerð með tillögunni er fjöldi útlendinga rakinn og svo segir: „Hér er um fjölda fólks að ræða sem oft á ekki auðvelt með að sinna hagsmuna- og réttindamálum sínum en mikilvægt er að þeim málum sé sinnt heildstætt svo að góð yfirsýn fáist.“ Málum útlendinganna, sem eru um 15.000 talsins, verður sum sé sinnt „heildstætt svo að góð yfirsýn fáist“ ef samþykki fæst fyrir tillögunni. Um kostnað við þetta embætti eða hversu mannaflsfrekt það gæti orðið er ekki fjallað í greinargerðinni, enda þarf varla að hafa áhyggjur af útgjöldum ríkissjóðs. Nú geta allir gengið í þann digra sjóð og náð þannig nokkrum árangri við að vinna bug á afganginum. Þetta er að vísu ekki alveg í anda málflutnings Samfylkingarinnar um hættuna af viðskiptahalla og aðgerðir þess vegna, en hvenær þurfti samræmi í málflutning? Mál eru bara flutt út og suður og ef svo óheppilega vill til að tillögur verði að veruleika munu skattgreiðendur bara að taka því eins og hverju öðru hundsbiti.
En víkjum aftur að umboðs- og talsmönnum, eða umboðstalsmönnum. Margir stjórnmálamenn sjá vandamál í hverju horni og telja að eina lausn „vandans“ sé að ríkið grípi til aðgerða. Ein lausnanna er að stofna embætti umboðstalsmann viðkomandi málaflokks. Á sínum tíma var sett á stofn embætti umboðsmanns Alþingis og einnig var skipaður umboðsmaður barna. Uppi hafa verið hugmyndir um alls kyns umboðstalsmenn aðra, svo sem aldraðra og neytenda. Líklega er tillaga Samfylkingarþingmannanna um talsmann útlendinga sú nýjasta af þessum toga en örugglega ekki sú síðasta. Raunar má lesa út úr síðustu setningu greinargerðarinnar með tillögunni að þess sé skammt að bíða að ný tillaga skjóti upp kollinum, en setningin hljóðar svo: „Stofnun embættis talsmanns útlendinga yrði því ekki síður mikilvægt og gagnlegt Íslendingum.“
Þannig er nú það. Talsmaður útlendinga gagnast auðvitað aðallega Íslendingum. Nú má það vel vera að Íslendingar hefðu gagn af slíku embætti, að minnsta kosti ef litið er til skammtímahagsmuna þeirra sem fengju vinnu við það, en þá hlýtur þess að vera skammt að bíða að tillaga um umboðstalsmann Íslendinga líti dagsins ljós. Hún myndi vitaskuld helst gagnast útlendingum, enda myndu á því embætti eingöngu starfa útlendingar sem sinna myndu ráðvilltum Íslendingum sem ekki kunna fótum sínum forráð í ört smækkandi alþjóðavæddum heimi hraða og spennu.