Fimmtudagur 19. október 2000

293. tbl. 4. árg.

Það er víðar en á Íslandi sem menn glíma við þann „vanda“ sem tekjuafgangur á ríkissjóði er. Við forval stóru stjórnmálaflokkanna í Bandaríkjunum ræddu demókratarnir Al Gore og Bill Bradley  aðallega um hvernig ríkið ætti að útdeila afgangi á ríkissjóði, m.a. með niðurgreiðslu skulda og nýjum opinberum verkefnum en repúblikanarnir George W. Bush og John McCain skiptust jafnframt á skoðunum um það hversu miklu ríkið ætti að skila aftur til almennings í formi skattalækkana.

Þessi áherslumunur kom vel í ljós í sjónvarpskappræðum frambjóðendanna sem urðu forsetaefni flokkanna og lagði George W. Bush sig sérstaklega fram um það í fyrrakvöld að draga hann fram. Al Gore hefur raunar einnig skattalækkanir á sinni stefnuskrá en þær eru ekki jafn almennar og Bush boðar. Bush virðist jafnframt átta sig á því að tekjuafgangur vegna aukinna skatttekna er ekki stjórnmálamönnum að þakka heldur grósku í atvinnulífinu.

Í lokaávarpi sínu sagði Bush meðal annars eftir að hafa þulið upp hefðbundinn loforðalista atvinnustjórnmálamanns: „Ég vil skila ykkur hluta fjárins. Tekjuafgangur ríkissjóðs tilheyrir ekki stjórnvöldum heldur fólkinu. Afgangurinn er ekki til kominn með atorku stjórnmálamanna heldur að tilstuðlan almennings og það er kominn tími til að skila þessu fé til fólksins.“
Vef-Þjóðviljinn man eftir fjármálaráðherra sem mætti huga að þessum orðum.