Miðvikudagur 1. nóvember 2000

306. tbl. 4. árg.

„Það er ekki að ástæðulausu sem við erum í tveimur flokkum. Við erum nefnilega ekki sammála í öllum málum“ sagði Össur Skarphéðinsson um sig og Steingrím J. Sigfússon í Kastljósi Ríkissjónvarpsins í fyrrakvöld. Nei, það var nú þetta sem menn voru alltaf að reyna að segja æstustu sameiningarmönnunum þegar mest gekk á í „sameiningu vinstri manna“ á síðasta kjörtímabili. Enda hefur ekkert breyst þrátt fyrir mikla fyrirhöfn og látlaust tal um „stórkostleg tíðindi“ og „ótrúlegan árangur“ í sameiningarmálunum. Það eina sem í raun gerðist var það að lítill hluti Alþýðubandalagsins gekk í Alþýðuflokkinn sem varð svo mikið um að hann breytti um nafn. Hinn hluti Alþýðubandalagsins breytti svo líka um nafn en annað gerðist ekki. Vinstri menn á Íslandi eru nú sem fyrr skiptir í þrjá hópa; Alþýðuflokkinn, Alþýðubandalagið og Samband ungra framsóknarmanna.

Í mars í vor sagði Vef-Þjóðviljinn frá stofnfundi ungra jafnaðarmanna með eftirfarandi hætti: „Á stofnfundi hreyfingar ungs samfylkingarfólks var hins vegar ekki annað að sjá en þingmenn samfylkingarinnar, flestir grásprengdir og komnir af léttasta skeiði, sætu á fremsta bekk á stofnfundinum og hefðu að öðru leyti verið í aðalhlutverki þar. Þannig lét hver þingmaðurinn á fætur öðrum teyma sig í sjónvarpsviðtal þar sem settar voru fram athugasemdir og jafnvel látin í ljós andstaða við þær skoðanir sem fram komu á „fundi ungliðanna“. Ungir samfylkingarmenn tala fjálglega um að einn helsti hvati stofnunar ungliðasamtakanna sé sá að tími sé kominn til að veita ungu fólki öflugan valkost við ungliðahreyfingu annarra flokka. Hinir flokkarnir þurfa þó varla mikið að óttast ef umræddur stofnfundur endurspeglar aldurssamsetningu hreyfingarinnar. En hið nýja félag heitir Ungir jafnaðarmenn og mun Samband ungra jafnaðarmanna eðlilega vera aðili að því eftir að það sagði sig úr Grósku samfylkingu félagshyggjufólks án þess að ungar Kvennalistakonur fengju rönd við reist ásamt Verðandi ungum Alþýðubandalagsmönnum, bæði úr ABR, Birtingu, Samtökum herstöðvaandstæðinga og Framsýn en Félag ungra jafnaðarmanna í Reykjavík er líka með þar sem þeir eru ekki á landsvísu enda ungliðahreyfing Þjóðvaka með ítök þar og Nýr vettvangur kemur sterkur inn og þetta tengist allt Æskulýðsfylkingu Alþýðubandalagsins í gegnum Helga Hjörvar og Hrannar Arnarsson og R-listann. Hvað myndi Ágúst Einarsson eiginlega gera ef hann væri ungur í dag?“

Ungir jafnaðarmenn á öllum aldri héldu annan fund um síðustu helgi þar sem þær ræddu málin. Einn fundarmanna Kári Þorleifsson, sem mun ekki aðeins ungur í anda heldur einnig á árum talið, hefur nú kvartað yfir því opinberlega að Mörður Árnason og Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir hafi skipt sér af starfi málefnahópa á fundinum og verið með umvandanir við unga fólkið. Mörður gat víst ekki á sér setið þegar unga fólkið hafði efasemdir um ríkisrekið útvarp og Ásta Ragnheiður mátti ekki heyra á það minnst að hnefaleikar yrðu leyfðir.