Stéttarfélag lögreglumanna hefur nú hafið auglýsingaherferð sem ætlað er að auka fylgi almennings við launahækkanir og meiri réttindi lögreglumanna. Eins og kunnugt er hafa lögreglumenn ekki verkfallsrétt en í útvarpsfréttum í gær sagði forsvarsmaður félags þeirra að lögreglan ætlaðist til þess að fólk myndi nú ræða störf lögreglumanna. Vefþjóðviljinn er hlýðinn og veit auk þess að samkvæmt lögum ber borgurunum að hlýða fyrirmælum lögreglunnar. Telur hann sér því skylt að ræða síðustu fréttir sem sagðar hafa verið af lögregluaðgerðum.
Reyndar voru þær eiginlega fremur fréttir af aðgerðaleysi hennar. Í gær bar svo við að hópur eldsneytiskaupenda efndi til mótmæla vegna boðaðrar hækkunar á eldsneytisverði. Eftir að vöruflutningabílstjórar og rútnamenn höfðu lokað leiðum að birgðastöðvum olíufélaganna tóku þeir upp á því – að sögn um 200 talsins – að aka Hringbraut og Miklubraut á háannatíma á 10 kílómetra hraða á klukkustund. Varð þetta til þess að aðrir ökumenn komust vart lönd né strönd og mátti einu gilda hversu brýnum erindum þeir voru að sinna. Í fréttum var svo greint frá því að lögregla hefði fylgst með gangi mála en ekkert hafst að.
Eins og borgarbúar mega oft reyna, eru lögreglumenn oft fremur nákvæmir þegar kemur að umferðarlögunum og hugsanlegum brotum á þeim. Ganga þeir oft ríkt eftir því að lögunum sé fylgt og sekta fólk hiklaust ef út af er brugðið. En einhverra hluta vegna virðist sem menn megi bindast samtökum um að því sem næst loka helstu umferðargötum borgarinnar, ef þeim bara er mikið niðri fyrir út af einhverjum baráttumálum sínum. Fyrir utan það að ekkert virðist lögreglan hafa haft að athuga við það að menn hafi lokað leiðum að birgðastöðvum olíufélaganna.
Það er ekki einungis hraður akstur sem bannaður er í lögum. Í 4. gr. umferðarlaga segir meðal annars: „Vegfarandi skal sýna tillitssemi og varúð svo að eigi leiði til hættu eða valdi tjóni eða óþægindum, og þannig að eigi trufli eða tefji umferð að óþörfu.“ Það væri gaman að vita hvort menn telja skipulagðan hægagang allt að 200 flutningabifreiða um helstu umferðargötur höfuðborgarinnar samrýmast þessu ákvæði. Það verður laglegt ef menn fara að tíðka þær aðferðir sem notaðar voru í gær. Loka aðgangi að fyrirtækjum ef þeir eru óhressir með gjaldskrána. Og hindra svo umferð almennra borgara um göturnar á eftir. Að minnsta kosti virðist mega ætla hvað lögreglan mun gera ef þessum aðferðum verður beitt: Hún mun fylgjast með.