Helgarsprokið 7. maí 2000

128. tbl. 4. árg.

Á þingi hins nútímalega jafnaðarmannaflokks sem lauk nú um helgina með því að þingfulltrúar risu úr sætum og kirjuðu Internasjonallinn, sem jafnvel Tony Blair er hættur að nota, var Össur Skarphéðinsson kjörinn formaður. Það tók hinn nútímalega jafnaðarmannaflokk ekki nema eitt ár frá þingkosningum að finna sér formann, svo snarir eru þessir nútímalegu flokkar í snúningum. Vef-Þjóðviljinn getur þó ekki sagt að það að Össur hafi nú tekið við formennskunni komi á óvart. Að minnsta kosti mátti lesa um það hér á þessum síðum hinn 7. maí 1999 í fyrra, daginn fyrir kosningar til Alþingis, hver tæki við formennskunni fyrr en síðar: 

Nú eru í þeim flokksbrotum sem standa að Fylkingunni þaulreyndir stjórnmálamenn. Hvers vegna mistókst þeim svo hrapalega í kosningabaráttunni sem raun ber vitni? Vef-Þjóðviljinn gat þess í gær að líklega hefði Fylkingin treyst um of á að auglýsingaskrumið fleytti henni áfram. En fleira getur legið að baki. Stefna Fylkingarinnar í utanríkis- og umhverfisskattamálum hefur verið henni til mikilla trafala í kosningabaráttunni. Einn maður hefur sennilega haft meiri áhrif á mótun stefnu Fylkingarinnar í þessum málaflokkum en nokkur annar. Hann er fyrrverandi umhverfisráðherra og núverandi fulltrúi  Fylkingarinnar í utanríkismálanefnd Alþingis. Hann hefur jafnvel gert Fylkingunni þann óleik að fara af stað með allt aðrar skoðanir á aðild Íslands að ESB en hann hafði sjálfur forgöngu um að móta innan Fylkingarinnar! Til þess fékk hann liðsinni Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur. Vart er þörf á að rifja upp útspil hans um tímasprengjuna í ríkisfjármálunum sem leiddu til fleygra orða Guðmundar Ólafssonar.

En þegar það er hugsað til enda hvaða áhrif það hefði á pólítískan frama Össurar Skarphéðinssonar ef Margréti Frímannsdóttur og Jóhönnu Sigurðardóttur hefði tekist að leiða Fylkinguna til sigurs í kosningunum blasir auðvitað við að það hentar honum alls ekki. Eftir að Jóhanna malaði Össur í prófkjörinu í Reykjavík átti hann tæpast von á ráðherrasæti í ríkisstjórn Fylkingarinnar og einhvers annars flokks. Margrét, Jóhanna, Rannveig, Sighvatur og svo einhver kvennalistakona eru augljóslega framar í goggunarröðinni. Með sæmilegu tapi Fylkingarinnar á morgun losnar Össur við allt þetta fólk úr forystu Fylkingarinnar. Því verður kennt um tapið. Hver er þá líklegastur til að taka við?“

Vef-Þjóðviljinn óskar hinum nútímalega jafnaðarmannaflokki til hamingju með nýjan formann. Það er ekki ónýt byrjun hjá sameinuðum vinstri mönnum í nútímalegum jafnaðarmannaflokki að hafa haldið stofnfund þar sem álíka margir tóku þátt í kosningum um embætti og á SUS-þingi.