Þriðjudagur 11. júlí 2000

193. tbl. 4. árg.

Erfitt ætlar að verða að kveða byggðastefnudrauginn niður. Nú hefur iðnaðar- og viðskiptaráðherra ákveðið að enn ein stofnunin skuli flutt út á land með þeim kostnaði sem því fylgir. Auðvitað er ráðherra búinn að láta ráðuneytismenn reikna flutninginn út þannig að hann virðist hagstæður, en forstjóri þeirrar stofnunar sem um ræðir, Byggðastofnunar, gefur lítið fyrir þessa útreikninga og telur þá ágiskun. Telja verður líklegt að forstjórinn hafi rétt fyrir sér enda hæpið að hagstætt geti verið að reka slíka stofnun úti á landi enda hefur það ætíð verið markmið Byggðastofnunar að styðja við atvinnurekstur sem ber sig ekki að öðrum kosti. Ráðherrar ættu að láta eiga sig í umræðunni um byggðamál að halda því fram að byggðastefna ríkisstjórnarinnar sé hagstæð. Hún á sér allt aðrar skýringar.

„Jafnvægi í byggð landsins“ er slagorð sem allt of oft hefur heyrst og baráttan fyrir þessu „jafnvægi“ er það sem byggðastefnan virðist snúast um. Virðist, því auðvitað snýst hún fyrst og fremst um atkvæðaveiðar og kjördæmapot. Hingað til hefur verið afar mikið ójafnvægi milli fólks eftir því hvar það býr á landinu og þetta hafa sum byggðarlög nýtt sér til að þrýsta á þingmenn sína um aukinn stuðnings hins opinbera. Atkvæðavægið verður heldur skárra í næstu kosningum til Alþingis en í þeim sem áður hafa farið fram, en þó vantar enn töluvert upp á að fullrar sanngirni sé gætt. Það sést t.d. af því að enn skuli fylgt svo harkalegri byggðastefnu sem raun ber vitni.

En hvað þýðir slagorðið „jafnvægi í byggð landsins“? Hefur það einhverja merkingu? Jú, þeir sem láta það út úr sér virðast sjá Ísland fyrir sér sem einhvers konar útskorna plötu sem standi á einum pinna – líklega ekki á als oddi – og ef fólk færist til myndist ójafnvægi og platan sporðreisist. Þessum mönnum til huggunar má benda á að Ísland er jarðfast og engar áhyggjur þarf að hafa af einhverju ímynduðu jafnvægi. Eina jafnvægið sem hafa þarf er það jafnvægi sem fólk velur sér sjálft. Ójafnvægið myndast ekki fyrr en ríkið grípur inn í og reynir að gera suma staði á landinu betur til búsetu fallna en þeir væru ella. Og aðra staði um leið hlutfallslega verri. Þessi tilraun ríkisins tekst vitaskuld ekki og niðurstaðan verður sú að vegna mikilla fjárútláta verður allt landið síður byggilegt en það væri án afskiptanna. Byggðastefnan er þess vegna misskilin greiðastarfsemi sem gerir engum gagn – nema ef vera skyldi einstaka kjördæmapotara.