Borgarstjóri hefur gefið þeirri hugmynd undir fótinn að foreldrar taki aukinn þátt í kostnaði við rekstur leikskóla. Þetta eru ágæt tíðindi enda eðlilegt að foreldrar greiði fyrir leikskólapláss barna sinna. Nú hefur Vef-Þjóðviljinn komist að snoðir um að ætlunin er ekki eingöngu að nota hækkun leikskólagjalda til reksturs dagheimila heldur verður hluti hennar notaður til að greiða hátíðarkvöldverð fyrir borgarfulltrúa og maka þeirra í Perlunni um næstu áramót. Þessi kvöldverður á að kosta litlar 18 þúsund krónur á mann sem þýðir 540 þúsund króna kostnað ef allir mæta. Það verður gaman fyrir foreldra leikskólabarna og aðra borgarbúa að standa fyrir utan Perluna og mæna upp til borgarstjóra og annarra borgarfulltrúa þar sem þeir skála í kampavíni fyrir nýju ári.
Nýlega bárust fréttir af því að í Kaupmannahöfn væri álíka loftmengun og í þeim borgum þróunarlanda þar sem ástandið hefur verið mjög slæmt. Þetta var niðurstaða rannsóknar sem Danmarks Miljøundersøgelser birtir upplýsingar um. Þessi mikla mengun kemur einkum frá bílum. Verð á bílum í Danmörku er með því hæsta sem þekkist vegna hárra skatta. Þessir háu skattar (sem sumir eru nefndir grænir skattar) valda því að Danir hafa ekki efni á að endurnýja bíla sína. Gamlar bíldruslur menga meira en nýir bílar. Gömlu bílarnir eyða meiru og skila óhreinni útblæstri frá sér. Byggingarefni bíla eru léttari en áður og afl véla nýtist betur. Hefur orðið bylting hvaða þetta varðar á undanförnum áratugum enda fer það saman að gera bíla sparneytna og draga úr mengun frá þeim. Nýir bílar eru því umhverfisvænni en gamlir í hefðbundum skilningi þess orðs. Grænir skattar (eins og aðrir skattar) á bíla eru því óhagstæðir umhverfinu. Þeir koma í veg fyrir að fólk geti losað sig við gamla, eyðslufreka, reykspúandi og óörugga bíla.
Fleira sem kennt er við grænt er hættulegt umhverfinu. Vinstri grænt er afleitt fyrir umhverfið. Enda styðja íslenskir vinstri-grænir hugmyndir um aukna skatta á bíleigendur. Í Austur-Evrópu vinstri stefnunnar var gengið afar nærri náttúrunni. Mengun var mun meiri en í Vestur-Evrópu og náttúruauðlindir voru blóðmjólkaðar. Skýr einkaeignarréttur á landi og öðrum gæðum náttúrunnar og frjáls markaður með þessar eignir dregur hins vegar úr líkum á því að gengið sé nærri gæðum jarðar.