Það eru ekki bara vinstri menn í vinstri flokkunum sem nota ný hugtök og nöfn til að breiða yfir verk sín. Líka vinstri menn í hinum flokkunum. Ríkisstofnanir eru nú nútímavæddar til að réttlæta gagnslausa starfsemi þeirra. Og ef það dugar ekki er farið í heildstæða stefnumótun. Ný ríkisapparöt heita svo ekki lengur ríkisstofnanir heldur ríkisstofur. Og nú hækka menn ekki lengur ríkisútgjöld og skatta heldur gera menn samning um gæluverkefnin. Viðskiptaráðherra gerði nýlega samning við Neytendasamtökin um að þau verði á framfæri ríkisins næstu árin. Menntamálaráðherra og fjármálaráðherra gerðu í síðustu viku samning við samtök kvikmyndagerðamanna um auka útgjöld ríkisins til Kvikmyndasjóðs Íslands um 100% á næstu árum! Ríkið gerir semsé samning við menn úti í bæ um að seilast í vasa skattgreiðenda og framlög verði aukin til ríkisstofnunarinnar Kvikmyndasjóðs. Á sama tíma var Menningarsjóður útvarpsstöðva lagður niður sem er fagnaðarefni en auðvitað mátti ekki nota tækifærið og draga úr umsvifum ríkisins heldur varð að gera samning um hið gagnstæða!
Það hlýtur að orka tvímælis að ráðherrar geri samninga sem þessa sem binda hendur ríkisvaldsins næstu árin. Hvað ef harðnar á dalnum og ríkið getur ekki staðið við samninginn? Það má raunar velta því fyrir sér hvort kvikmyndagerðarmenn geta vanefnt samninginn sem þeir undirrituðu með einhverjum hætti? Væntanlega ekki. Ekki nema með því að neita að taka við styrkjunum! Hvað gildi hefur undirskrift þeirra þá? Þetta er auðvitað ekkert annað en grátbroslegt sjónarspil sem sett er á svið til að draga athyglina frá því að á kosningaári eru menn að kaupa sér stuðning þrýstihóps með fé úr vösum skattgreiðenda. Þá kemur á óvart að ráðherrar sem brýnt hafa fyrir þjóðinni að nauðsynlegt sé að draga úr þenslunni í efnahagslífinu skuli ausa fé í ný verkefni. En líklega eru atkvæðakaup ekki breyta í þenslujöfnunni á Þjóðhagsstofnun.
Þessa dagana gengur töluvert af ösku og öðrum gosefnum upp úr Grímsvötnum í Vatnajökli. Af þessu er náttúrulega sóðaskapur og ljóst er að aska mun jafnvel dreifast yfir ósnortin víðerni. Ef allt færi á versta veg gæti hlaupið vatn norður úr jöklinum og fært ósnortin víðerni á kaf. En örvæntum eigi því líklega yrði þá til nýtt ósnortið víðerni enda kemur mannskepnan hvergi nálægt þessum hamförum. Hér væri víðernið nefnilega snortið með náttúrulegum hætti og er þá að sjálfsögðu ósnortið…