Fimmtudagur 8. janúar 1998

8. tbl. 2. árg.

Hækkun mjólkurverðs hefur vakið nokkra athygli að undanförnu. Virðist ljóst að heildsöluverðið, sem ákveðið er af svokallaðri fimmmannanefnd, hafi hækkað meira að undanförnu heldur en almennt verðlag í landinu. Nú er almennt ekkert við það að athuga, að framleiðendur og aðrir seljendur vöru hækki verð ef þeir telja þörf á því, en í þessu tilviki vekur hækkunin harðari viðbrögð en ella vegna þess forneskjulega verðmyndunarkerfis, sem enn er við lýði á þessu sviði. Í stað þess að lögmál framboðs og eftirspurnar ráði ríkjum og samkeppni milli aðila tryggi ákveðið aðhald gagnvart verðhækkunum, er heildsöluverð mjólkurafurða enn ákveðið af opinberri nefnd. Þrátt fyrir að smásöluverðið hafi nýlega verið gefið frjálst er því enn um verulega opinbera verðstýringu að ræða, sem leiðir til þess að ekki er fyrir hendi raunveruleg samkeppni milli einstakra aðila í framleiðslu og heildsölu þessa varnings.

Draugur haftabúskaparins ríður enn húsum í framleiðslu bæði mjólkur- og sauðfjárafurða og kostir markaðskerfisins fá ekki að njóta sín. Á sama tíma nýtur svo innlend framleiðsla á þessu sviði enn verndar af nær óyfirstíganlegum tollamúrum, sem stjórnvöld hafa komið á með því að túlka GATT-samninginn landbúnaðarkerfinu í hag en neytendum í óhag. Það hlýtur að vera eitt mikilvægasta verkefni í íslenskum stjórnmálum á næstu árum að koma á markaðsbúskap í framleiðslu og vinnslu landbúnaðarafurða. Það mun skila sér til baka í formi mun lægra vöruverðs til neytenda, auk þess sem landbúnaðurinn í landinu gæti fengið tækifæri til að sanna sig sem alvöru atvinnugrein, í stað þess að vera til frambúðar ómagi, sem haldið er uppi með tilflutningi fjármagns úr öðrum og arðbærari greinum. Menn mega ekki gleyma því að þótt samkeppni kunni að vera sársaukafull í stuttan tíma fyrir þá sem þurfa að taka þátt í henni, þá styrkir hún og eflir keppendurna á markaðnum þegar til lengri tíma er litið.

Það hefur vakið furðu margra hversu litla athygli flokkaflakk og annar vandræðagangur vinstri manna fær í fjölmiðlum. Stórmerkir „frjálsir og óháðir“ fjölmiðlar á borð við DV og Dag-sem-kallaður-er-Tíminn hafa til dæmis ekki fjallað um þetta eins og við mætti búast af slíkum fjölmiðlum. Flakk Ágústs Einarssonar, hluthafa í síðarnefnda blaðinu, í og úr, í og úr og aftur í Alþýðuflokkinn hefur t.d. ekki þótt til marks um marks um markleysi þingmannsins. Annar flóttamaður úr Þjóðvaka og í Alþýðuflokkinn, Ásta R. Jóhannesdóttir fyrrverandi forystumaður í Framsóknarflokknum, hefur ekki þótt hegða sér undarlega. Engum virðist þykja þetta flakk skrýtið eða bera vott um að fólk hafi meiri áhuga á eigin frama en landslýð. Kjósendur Þjóðvaka sitja svo eftir með sárt ennið og vita ekki hvaðan á sig stendur veðrið. Þeir kusu fólkið sem flúði Alþýðuflokkinn, en hafa nú lent í því að atkvæði þeirra verða til að styrkja Alþýðuflokkinn á meðan Þjóðvaki á þingi hefur minnkað um helming.

Svo er það þingflokkur Kvennalistans. Hann liðaðist í sundur þegar Kristín Ástgeirsdóttir fann út að „hún ætti sig sjálf“ og eftir sitja tvær konur sem eru ekki nema mátulega vissar um hvort þær vilja vera í þing„flokknum“ eða ekki. Svona gengur hin stórmerka sameining jafnaðarmanna fyrir sig. Nú er bara beðið eftir því að sameiningunni verði hraðað með því að Hjörleifur Guttormsson stofni þingflokk með Kristínu Ástgeirsdóttur, Margrét Frímannsdóttir hlaupi yfir í Þjóðvaka og Ágúst Einarsson gangi enn einu sinni úr Alþýðuflokknum. Þá væri farsinn fullkomnaður, en þó má víst telja að slíkt teldist ekki til tíðinda á DV Össurar Skarphéðinssonar eða DT Stefáns Jóns Hafstein.