Halldór Ásgrímsson, formaður Framsóknarflokksins, lét svo ummælt á miðstjórnarfundi framsóknarmanna um helgina, að samstarf flokksins við vinstri flokkana í R-listanum hefði skaðað flokksstarf framsóknarmanna í Reykjavík. Lagði hann jafnframt áherslu á að flokkurinn ætti að leggja sem mesta áherslu á að bjóða fram í eigin nafni í sem flestum byggðarlögum.
Þetta er athyglisverð yfirlýsing. Raunar á það ekki að þurfa að koma á óvart, að formaður stjórnmálaflokks, sem vill láta taka sig alvarlega, leggi áherslu á að flokkurinn bjóði fram í kosningum. Það er í sjálfu sér athyglisverðara að hann skuli telja ástæðu til að taka slíkt fram. Hins vegar verður ekki fram hjá því litið, að í ljósi samstarfsins í R-listanum er þessi skoðun framsóknarmanna sérstaklega fréttnæm. Þeir telja reynsluna af samstarfinu í R-listanum m.ö.o. ekki til eftirbreytni. Í því ljósi er einkennilegt að þeir skuli ekki reyna að losa sig strax úr þessu samstarfi og koma fram án dulargervis í höfuðborg landsins.
Spyrja má hvað valdi þessum ummælum Halldórs. Hann er ekki þannig maður, eins og til dæmis forveri hans í formannsembættinu, að missa svona hluti út úr sér „óvart“. Hann hefur heldur ekki getið sér orð fyrir upphlaupsmálflutning í stóryrðastíl eins og tilvonandi sendiherra í Washington eða nýr ritstjóri DV. Halldór er að jafnaði orðvar maður, sem ekki missir stjórn á sér og sýnir yfirleitt engin svipbrigði. Getur verið að hann átti sig á því, að vinstri menn líta á hugsanlegan sigur R-listans næsta vor sem mikilvægan áfangasigur sinn gegn ríkisstjórninni sem hann á sjálfur aðild að? Sér hann kannski allt í einu að vinstri menn ætla að nota atkvæði framsóknarmanna í borgarstjórnarkosningunum til að koma höggi á Framsóknarflokkinn í ríkisstjórn? Ef þetta er rót ummæla Halldórs, þá er þörf á að endurtaka spurninguna sem kom fram hér að framan: Hvað er Framsóknarflokkurinn að gera í þessu R-listasamstarfi?
Björn Bjarnason vekur athygli á því á heimasíðu sinni þessa vikuna að ýmsir, þeirra á meðal hann sjálfur, hafi spáð því að þátttaka Kvennalistans í R-listanum yrði hans banabiti. Þessi spá rættist að nokkru leyti með útkomu Kvennalistans í síðustu þingkosningum en nú virðist sem spáin sé að rætast að fullu. Það má því að vissu leyti þakka Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur fyrir þarft verk. Meðal þess sem Kvennalistinn hefur barist fyrir í gegnum tíðina er aukning ríkisútgjalda, skattahækkanir og skuldasöfnun, lögbinding lágmarkslauna, byggðakvótar og friðarfræðsla í leikskólum.
Pétur Blöndal alþingismaður með meiru hefur sett upp heimasíðu þar sem menn geta fengið nánari upplýsingar um manninn og störf hans en gengur og gerist með þingmenn.