Emm-og-emm súkkulaði varð þingmanninum Gunnlaugi Sigmundssynitilefni skrifa um forsjárhyggju í DV í fyrradag. “Svona er þetta á Íslandi í dag, börnum fátæka fólksins, sem ekki hefur efni á að ferðast, er meinað um hið forboðna M og M súkkulaði en börn embættismanna, ráðherra og annarra félaga í ferðakklúbbi ríkisins geta úðað þessu sama sælgæti í sig með þeim mun meiri ánægju vitandi að það er orðið „stöðutákn” að geta sýnt að pabbi eða mamma hafi aðstöðu til að fara til útlanda og kaupa í Fríhöfninni það sælgæti sem forræðiskerfi embættissmanna telur ekki hæfa almenningi.“ Nú er það vafalaust rétt að embættismenn eiga sinn þátt í banni á umræddu súkkulaði, en ekki er hægt að skella skuldinni í heilu lagi á þá. Flokksbróðir Gunnlaugs, Guðmundur Bjarnason umhverfisráðherra, ber ábyrgð á því að bannið er í gildi, enda setti umhverfisráðuneytið reglurnar. Það kemur því í hlut framsóknarmanna að losa þjóðina við þetta bann. Gunnlaugur fær hrós fyrir að hefja það verk, en vafasamt hlýtur þó að vera um að Framsóknarflokkurinn sé rétti vettvangurinn í baráttunni gegn forsjárhyggjunni.
Eins og vitað er myndi auðlindaskattur soga fé úr fyrirtækjum til hins opinbera og aðallega utan af landi til Reykjavíkur. Eins og vitað er er Ágúst Einarsson með fjársterkari aðilum í útgerð. Einum hagyrðingi úti á landi varð því að orði:
Myndi leysast mikill vandi,
mannlíf yrði betur statt,
ef útgerðirnar úti á landi
allar greiddu veiðiskatt.
Í gömlu þorpi gull er falið,
gróðarvonin þar er slík,
að vel það gæti Ágúst alið
og aðra snauða í Reykjavík.