Evrópusambandið heldur uppteknum hætti og hefur hrint af stað..
enn einni styrkjaáætluninni. Nú hefur sambandið nefnilega ákveðið að styrkja framleiðslu fræðsluefnis á geisladiskum. Styrkjaprógrammið ber nafnið Midas og hefur verið sett upp skrifstofa hérlendis til að Íslendingar geti tottað þennan spena eins og aðrir Evrópubúar. Að sögn aðstandenda mun þessi áætlun fjölga atvinnutækifærum. O jæja. Í fyrsta lagi þarf að taka féð sem notað er í styrkina með skattheimtu af einstaklingum og fyrirtækjum sem annars hefðu nýtt það til fjárfestinga sem vafalaust skapa atvinnu. Í öðru lagi leiða svona styrkir til þess að fyrirtæki eyða kröftum sínum í að þróa hugmyndir sem ganga í augun á kerfiskörlunum sem stjórna styrkjasjóðunum í stað þess að þróa hugmyndir sem eru einhvers virði á markaðnum og koma fólki að gagni. Um leið og styrkurinn er uppurinn sitja fyrirtækin því uppi með verðlausa vöru sem enga atvinnu má hafa af. Svona styrkir fækka því atvinnutækifærum.
Þess ber svo að geta að þeir sem vilja sækja um styrki úr sjóðum…
Evrópusambandsins þurfa að gera ráð fyrir að eyða drjúgum tíma í að fylla út umsóknareyðublöðin sem munu vera, eins og svo margt annað frá þessu fína Evrópusambandi, lítt skiljanleg venjulegu fólki.
Barónessan Margaret Thatcher prýðir forsíðu tímaritsins…
Newsweek þessa vikuna (28. apríl) og er tilefnið komandi þingkosningar í Bretlandi. Þar er fullyrt, að hver svo sem úrslitin verða, þá sé það hún sem fer með sigur af hólmi. Eða öllu heldur sú stefna sem hún fylgdi fast eftir í sinni stjórnartíð, og hvorki Major né Blair hyggjast hrófla mikið við. Enda eru þess ýmis merki að Thatcher hafi verið á réttri leið: Einungis rétt rúmlega helmingur Breta bjó í eigin húsnæði þegar Thatcher tók við árið 1979. Nú búa rétt tæp 70% í eigin húsnæði. 55% Breta áttu bíl árið 1979, en nú eiga 72% Breta eigin bifreið (og af hinum 10% fátækustu áttu aðeins 39% bíl árið 1979, en eiga 66% Breta í þessum hópi eigin bifreið, eða 2 af hverjum 3). Hluti af stefnu Thatchers var að neyða verkalýðsfélög til að hlýða lögum, og draga úr þeim lamandi áhrifum sem þau höfðu á þjóðarhag. Hún vildi, eins og hún sjálf sagði, breyta Bretlandi úr Gefðu-mér-hitt-og-þetta þjóðfélagi í Gerðu-það-sjálf(ur) þjóðfélag, eða m.ö.o. breyta því úr ölmusuþjóðfélagi í athafnaþjóðfélag. Árið 1979 voru 13,3. milljónir Breta í verkalýðsfélagi, en núna eru 7,3 milljónir í þeim. Breytingin er meiri en þessar tölur gefa til kynna, því vitaskuld hefur Bretum fjölgað allnokkuð í þau átján ár sem skilja þessar tölur að. Árið 1979 voru 15 verkföll í Bretlandi, og við það töpuðust 29,5 milljónir vinnudaga!! Í fyrra var aðeins eitt verkfall. Þetta hefur augljóslega skapað töluvert traust á breska vinnumarkaðinum, enda er árangurinn sá að á undanförnum árum hefur Bretland fengið til sín 40% af öllum fjárfestingum Bandaríkjanna og Japans í löndum ESB. Það er langstærsta hlutfallið, og slíkt gerist ekki nema menn beri gríðarlegt traust til stjórnvalda og almenns atvinnuumhverfis.