Samfylkingin vill breyta verkefnum hins daglega lífs í opinber málefni og gera almenna velsæld að daglegu viðfangsefni stjórnmálamanna. |
– Úr ávarpi Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur „forsætisráðherraefnis“ í kosningabæklingi Samfylkingarinnar vorið 2003. |
Sjö þingmenn Samfylkingarinnar, sex Alþýðubandalagsmenn og einn krati, hafa nú lagt fram tillögu til þingsályktunar um „milliliðalaust lýðræði“. Leggja þingmennirnir til að milliliðurinn Alþingi skipi nefnd, einn milliliðinn enn, til að kanna málið. Meðal nefndarmanna eiga að vera fulltrúar frá ASÍ og stúdentaráði Háskóla Íslands. ASÍ og stúdentaráð eiga það sammerkt að vera fjármögnuð með félagsgjöldum fólks sem aldrei hefur óskað eftir því að samtökin gerist milliliður fyrir fé úr vasa sínum og þaðan af síður að samtökin gerist milliliður fyrir skoðanir sínar og tali sífellt í nafni sínu.
Hvað er annars þetta „milliliðalausa lýðræði“? Þýðir þessi tillaga að þingmennirnir vilji að framvegis fái menn að ráða sem mestu um eigin hag? Þýðir þetta að þeir séu að viðurkenna að Alþýðubandalagið, Kvennalistinn og Alþýðuflokkurinn höfðu rangt fyrir sér þegar flokkarnir lögðust gegn því að fólk fengi að velja sér útvarpsstöðvar án milligöngu ríkisins? Er verið að viðurkenna að andstaða Samfylkingarinnar við einkavæðingu ríkisbankanna var röng því ríkið sé óþarfur milliliður í bankaviðskiptum? Hafði Ingibjörg Sólrún Gísladóttir rangt fyrir sér þegar hún vildi að Reykjavíkurborg hefði milligöngu um það hvar og hvenær fólk kaupir í matinn og í stað þess að gefa afgreiðslutíma frjálsan yrði opnuð ein „neyðarverslun“? Merkir þetta að framvegis muni þingmenn Samfylkingarinnar styðja þau mál er miða að því að ríkið, milliliður allra milliliða, þvælist ekki lengur fyrir í samskiptum milli einstaklinga og fyrirtækja.
Nei, svo gott er það ekki.
Markmiðið með tillögunni virðist því miður ekki að fækka þeim verkefnum sem ríkið hefur tekið að sér sem óþarfur milliliður. Þvert á móti virðist markmið hennar að auka möguleikana á því að fleiri verkefni hins daglega lífs verði dregin inn á vettvang stjórnmálanna. Flutningsmennirnir virðast mjög spenntir fyrir þeim möguleikum sem „alnetið“ býður upp á í þessu sambandi. Með tilkomu þess megi nánast halda þjóðaratkvæðagreiðslu um hvað sem er hvenær sem er. „Kominn er tími til að lýðræðið leiti upprunans, en í stað handauppréttinganna á Agora í Aþenu á gullöld Grikkja er að myndast möguleiki á að rétta upp hönd á netinu þess í stað“, segir í tillögunni. Aðeins tveir af sjö flutningsmönnum tillögunnar hafa þó talið það ómaksins vert að miðla upplýsingum til kjósenda sinna af heimasíðu á netinu. Fyrrverandi forsætisráðherraefni Samfylkingarinnar og núverandi formaður framtíðarhóps flokksins hefur þó sýnt burði í þá átt þótt Grikkjum á gullöld hefði kannski ekki þótt mikið til koma.
Í greinargerð með tillögunni um milliliðalaust lýðræði verður flutningsmönnum tíðrætt um að menntun sé orðin svo almenn að venjulegt fólk geti auðveldlega myndað sér skoðun á málum og kosið um þau. „Nú er einstaklingurinn hjá jafn vel upplýstri þjóð og Íslendingar eru þess umkominn að veita álit sitt og umsögn, nánast hvenær sem er í krafti þekkingar sinnar og hæfni. Menntabyltingin og aðgengi að upplýsingum gerir þetta að veruleika og á að fleyta okkur frá fulltrúalýðræði síðustu alda til milliliðalausrar þátttöku borgaranna sjálfra við stjórnun samfélagsins“ segir í tillögunni. Til að undirstrika traust sitt á hinum almenna manni leggja flutningsmennirnir til að nefndin sem fjalla á um málið verði að mestu leyti skipuð háskólafólki og alþingismönnum.
Það kemur auðvitað nokkuð á óvart í greinargerðinni sé gert svo mikið úr góðri menntun Íslendinga, jafnvel talað um „menntabyltingu“. Fyrsti flutningsmaður tillögunnar er þó sami Björgvin G. Sigurðsson og hefur ritað um það allmargar greinar á miðopnu Morgunblaðsins að hér sé nánast enga menntun á hafa, jafnrétti til náms sé brotið og hver veit hvað. Nei, nú þegar það hentar honum þá hefur átt sér stað „menntabylting“.
En gefum okkur að það sé rétt sem þingmenn Samfylkingarinnar halda fram að nú séu menn almennt betur menntaðir en áður. Þýðir það að þeir séu hæfari til að taka þátt í almennum kosningum? Almennar kosningar um einstök mál eru ekki aðeins atkvæðagreiðsla um hvernig þú vilt að málum sé hagað heldur einnig um hvernig allir aðrir eigi að hafa það. Það vill þannig til að hversu lengi sem sitja á skólabekk og hversu mörgum prófgráðum sem menn safna er vonlaust að þeir geti sett í spor allra samborgara sinna. Þekkingin er dreifð á meðal einstaklinganna. Þjóðaratkvæðagreiðslur geta auðvitað átt við um einstök mál en með því að gera þær að einhverjum daglegum leik á lýðnetinu er verið að stórauka möguleikana á því að koma málum inn á vettvang stjórnmálanna sem eiga ekki heima þar. Með því að knýja fram meirihlutavilja í málum, í stað þess að leysa þau í frjálsum viðskiptum einstaklinganna, er verið að kasta hinni dreifðu þekkingu á glæ. Það er verið að „breyta verkefnum hins daglega lífs í opinber málefni“.
Þess má að lokum geta að í leiðara Morgunblaðsins í dag er fjallað mjög lofsamlega um tillögu Samfylkingarinnar. Eina fylgiskjal tillögunnar er leiðari Morgunblaðsins frá 11. febrúar 2004. Á næstu dögum má svo vænta þess að Björgvin G. Sigurðsson hrósi leiðaranum í grein í miðopnunni og lagt verði út af þeirri grein í lofsamlegum leiðara daginn eftir.