Sumir halda að fréttamenn hafi þann starfa helstan að segja fréttir. Vissulega er það áberandi hluti starfs þeirra en margir þeirra virðast sinna öðrum hluta af ekki minni ákafa. Það er ekki bara að fréttamenn segi fréttir, þeir búa til fréttir. Og er þá ekki átt við það að þeir setji atburði líðandi stundar í aðgengilegt samhengi, nei þegar hér er sagt að fréttamenn búi til fréttir er átt við það að þeir taka merkingarlausa atburði og segja af þeim slíkar fréttir að óviðbúnum áhorfanda finnst um stund sem talsverð tíðindi hafi orðið. Alvarlegur fréttamaður þylur upp eitthvert aukaatriði og grefur svo upp einhvern sem finnst aukaatriðið stórmál, og voila: það er komið upp hneyksli. Að minnsta kosti „brotalöm“ sem má ræða í nokkra daga. Með því svo að einblína á aukaatriði mála en horfa að mestu fram hjá aðalatriðum þá tekst fréttamönnum að slá tvær flugur í einu höggi; þannig ná þeir í senn að búa til frétt og þagga niður fréttnæmt efni.
„Þegar höfðinginn Bill Clinton var kosinn forseti Bandaríkjanna þá fékk hann 43% greiddra atkvæða. Í sömu kosningum fékk hann atkvæði 89% blaðamanna í Washington. Frambjóðandi repúblikana fékk 7% atkvæða blaðamanna.“ |
Undanfarna daga hafa íslenskir fréttamenn boðið upp á ýmis sýnishorn þessarar iðju sinnar. Skammt er að minnast brunans mikla við Laugaveg á dögunum en þar hafa fréttamenn ekki enn séð neitt fréttnæmara en það að ekki hafi verið boðið upp á tafarlausa „áfallahjálp“ þegar íbúi hoppaði út úr brennandi húsi. Þó vel megi segja, ef einhver vill, að gott hefði verið að íbúinn hefði þegar í stað verið vafinn í teppi þá er hrein fjarstæða að þetta áfallahjálparleysi hafi verið eitthvert aðalriði atburða þessarar nætur. En móðursjúkum fréttamönnum hefur sennilega tekist að telja einhverjum trú um hið gagnstæða með hinu furðulega „fréttamati“ sínu.
Og hvað á að segja um þessar látlausu fréttir af örmótmælum gegn væntanlegum stóriðjuframkvæmdum austur á landi? Hvað fær ákveðna fjölmiðla til að birta myndir í hvert einasta skiptið sem sami tólf manna hópurinn hittist á Austurvelli, les þar ljóð eða vefur álpappír utan um styttuna af þeim frjálslynda framfaramanni, Jóni Sigurðssyni? Hvað í ósköpunum er fréttnæmt við þetta rugl? Hver eru tíðindin? Það vita allir að skoðanir eru skiptar um þessi mál svo ekki liggur fréttagildið í því. Það er ekki eins og eitthvað nýtt komi fram við þessar aðgerðir, nýjar röksemdir eða eitthvað. Það er ekki eins og þessar dellusamkomur skipti nokkru máli.
„Já en er það ekki lýðræðislegt að allar raddir fái að heyrast?“ spyr kannski einhver. Jú auðvitað á ekki að banna mönnum að tjá skoðanir sínar og vitaskuld eiga andstæðingar stóriðju sama rétt og aðrir. En það gerir skoðanirnar ekki fréttnæmar í hvert sinn sem þær eru boðaðar með tilgerðarlegum hætti á almannafæri. Það er einfaldlega ekki fréttnæmt þó einhver stóriðjuandstæðingur standi á Austurvelli í korter og lesi ljóð. Eða hvað ætli menn segðu ef aðrir tækju að beita samskonar „röksemdum“? Hvað ætli menn segðu ef stuðningsmenn stóriðjuframkvæmda tækju að vefja salernispappír utan um styttur bæjarins? Atvinnulausir Austfirðingar stæðu við aðalgötuna á Reyðarfirði og læsu þar ljóð. Ætli fréttastofur ríkisins myndu segja frá því öllu eins og stórviðburðum? Ætli Morgunblaðið – sem auðvitað tekur sömu rétttrúnaðarafstöðuna til stóriðjuframkvæmda og annarra mála – myndi senda Raxa austur að taka mynd af ljóðalesurunum? Nei ætli menn myndu ekki átta sig á því hvílík della væri á ferðinni.
Og hvað er með þessar fréttir af konunni sem segist vera hætt að borða mat til að leggja áherslu á sjónarmið sín í stóriðjumálum? Hvað eiga þær „fréttir“ eiginlega að þýða? Það er nákvæmlega ekkert fréttnæmt við þennan stóriðjukúr konunnar. Mataræði hennar – eða skortur á því – á einfaldlega ekkert minnsta erindi í fréttatíma. Eða hvað ætla fréttamenn að gera ef holdugur maður austur á Fáskrúðsfirði hættir líka að borða, en gerir það bara til að hvetja menn til að fara nú að virkja? Eða ef óþolinmóðir ungir sjálfstæðismenn taka að svelta sig til að hvetja fjármálaráðherra sinn til að fara nú að lækka skatta? Eða ungir vinstrigræningjar til þess að krefjast aukinna útgjalda til einhvers málaflokksins. Eða ungir Samfylkingarmenn bara út í loftið? Verður það bara allt mjög fréttnæmt og málefnalegt innlegg í stjórnmálaumræðuna? Hlýtur það ekki að vera? Að minnsta kosti eru til fréttamenn sem láta eins og þeir haldi að „hungurverkfall“ rosknu konunnar eigi erindi við annað fólk.
Eða getur verið að þeir trúi því sjálfir að allar „fréttirnar“ þeirra séu í raun af fréttnæmum atburðum sem fólk þurfi að vita sem mest um? Ja því ekki það. Að minnsta kosti er Vefþjóðviljinn ekki trúaður á að fréttamenn hafi með sér sérstakt samsæri um að rugla viðhorf og gildismat áhorfenda sinna. Með því er þó ekki sagt að lífsskoðun hvers og eins fréttamanns hafi ekki áhrif á störf hans. Sennilega hafa lífsviðhorf fjölmiðlamanna meiri áhrif á störf þeirra en margir – og fréttamennirnir sjálfir þá meðtaldir – gera sér grein fyrir. Fjölmiðlamenn umgangast fjölmiðlamenn og virðast oft sækja heimsmynd sína og lífsviðhorf hver til annars. Að minnsta kosti má telja öruggt að ef engir hefðu kosningarétt aðrir en fjölmiðlamenn þá væri margt öðruvísi en það er. Og þar sem fjölmiðlamenn eru upp til hópa vinstri sinnaðari en hinn almenni maður þá má ímynda sér að ástandið væri heldur en ekki verra en það er ef fjölmiðlamenn yrðu einráðir um gang mála.
En svo vanir eru menn því að fjölmiðlamenn séu vinstri sinnaðri en næsti maður, að þeir eru til sem halda því fram að fjölmiðill sé „lagður í einelti“ ef þangað er oftar en einu sinni ráðinn maður sem grunaður er um að styðja sama stjórnmálaflokk og 40% þjóðarinnar segist styðja um þessar mundir. Og það að fjölmiðlamenn séu vinstri sinnaðri en venjulegt fólk er ekki séríslenskt fyrirbrigði og má hér til gamans rifja upp lítið dæmi sem Larry Elder segir í þeirri umhugsunarvekjandi bók, The ten things you can’t say in America og Vefþjóðviljinn hefur áður fjallað um. Þegar höfðinginn Bill Clinton var kosinn forseti Bandaríkjanna þá fékk hann 43% greiddra atkvæða. Í sömu kosningum fékk hann atkvæði 89% blaðamanna í Washington. Frambjóðandi repúblikana fékk 7% atkvæða blaðamanna. Svona skiptast þeir sem hafa atvinnu af því að birta fólki heimsmyndina. Og þegar horft er til þess að fjölmiðlamenn umgangast fjölmiðlamenn og horfa til annarra fjölmiðlamanna í leit að fyrirmynd, þá þarf enginn að furða sig á því að það sé margt undarlegt sem komi úr fréttatímanum. Og það alveg án þess að fréttamennirnir sjálfir átti sig á því að neitt sé athugavert.