Það er stutt í það að jöklar okkar munu breytast í gufuský“, söng bæjarlistamaður Seltjarnarness áður en hann sneri sér að vögguvísnagerð. Frá því þetta var ort hafa ýmsir spáð svipuðum örlögum jökla um allan heim og enn er það mannskepnan sem á að bera ábyrgð á öllu saman. Þá voru það kjarnorkusprengjur sem áttu að bræða jöklana, nú eru það bílarnir og önnur tæki til daglegs brúks. Ein af nýju kenningunum um bráðnandi jökla snertir fjallið Kilimanjaro í Afríku, en þar hefur jökull verið á undanhaldi. Patrick J. Michaels prófessor í umhverfisfræðum ritar grein um þessi mál á vef Cato stofnunarinnar og rekur þar meðal annars tölur um hitastig og þróun jökulsins á Kilimanjaro. Michaels segir að á tímabilinu frá 1912 til 1953 hafi jökullinn á Kilimanjaro minnkað um 45% og á sama tíma hafi jörðin hitnað. Flestir vísindamenn séu hins vegar þeirrar skoðunar að þessi hitaaukning jarðar stafi aðallega af sólinni en ekki athöfnum manna, enda hafi útblástur gróðurhúsalofttegunda af manna völdum aðallega átt sér stað á síðari hluta síðustu aldar.
Á árunum 1953 til 1976 minnkaði flatarmál jökulsins um 21% frá upphaflegri stöðu. Á þessu tímabili fór jörðin þó kólnandi svo þá hefði mátt halda því fram að ef jörðin héldi áfram að kólna hyrfi jökullinn á Kilimanjaro. Frá árinu 1976 hefur jökullinn haldið áfram að minnka, en þó á minnsta hraða frá 1912, eða um 12% af upphaflegri stærð. Michaels segir staðbundnar hitamælingar á fjallinu vera umdeilanlegar, en árið 1979 hafi gervihnattamælingar hafist. Allir vísindamenn séu þeirrar skoðunar að slíkar mælingar séu afar góðar til að mæla hitastig Kilimanjaro. Þær séu líklega enn nákvæmari til mælinga á hita í slíkri hæð en á láglendi.
Michaels segir að gervihnattamælingar sýni að í kringum Kilimanjaro hafi loftið kólnað frá 1979 og þó haldi jökullinn áfram að hopa. Í nýlegri rannsókn, sem Michaels segir að hafi verið mistúlkuð og varð honum tilefni til þeirra skrifa sem hér er sagt frá, kemur fram að fyrir 11.000 til 4.000 árum hafi verið hlýrra í Afríku en nú og þó hafi Kilimanjaro verið þakið jökli. Ástæðan sé sú að úrkoma hafi verið meiri, ef til vill tvöföld á við það sem nú er. Michaels segir augljóst að það sé úrkoma en ekki lofthiti sem ráði stærð jökulsins á Kilimanjaro.
En þá má spyrja hvort það sé ef til vill hinu vonda vestræna samfélagi að kenna að hætt er að snjóa á Kilimanjaro. Michaels segir að þegar síðasti stóri El Nino hafi gert vart við sig í Kyrrahafinu á árunum 1997-1998 hafi þær vafasömu kenningar verið á sveimi að El Nino fyrirbærið gerði oftar vart við sig nú en áður vegna hækkandi hita jarðar, en sú meinta hækkun hita átti auðvitað að vera iðnvæddum mönnum að kenna. Ef El Nino fyrirbærið gerði oftar vart við sig ætti það hins vegar að vera gott fyrir jökulinn á Kilimanjaro, því Michaels segir sterk tengsl milli El Nino og úrkomu í Afríku.
Þeir sem trúa því að El Nino fyrirbærunum fjölgi við hærri hita jarðar og trúa því líka að hiti jarðar tengist því hversu mikið þeir keyra bílinn sinn, þeir ættu að drífa sig í langan bíltúr. En þetta á auðvitað bara við um þá sem vilja síður að jökullinn á Kilimanjaro skreppi meira saman.