Vefþjóðviljinn 115. tbl. 20. árg.
Í vikunni skrifaði Sigrún Magnúsdóttir umhverfisráðherra upp á sjálf „heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna“ í New York borg.
Í frétt á vef umhverfisráðuneytisins í gær sagði frá þessum atburði:
Átak gegn matarsóun, loftslagsvæn orka, landgræðsla og barátta fyrir jafnrétti kynjanna eru meðal áherslumála Íslands við að hrinda í framkvæmd Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. Sigrún Magnúsdóttir umhverfis- og auðlindaráðherra nefndi þetta í ávarpi sínu í gær fyrir Íslands hönd á sérstökum ráðherrafundi um markmiðin í New York.
Ef Vefþjóðviljinn man rétt er Ísland talið það land í veröldinni þar sem jafnrétti kynjanna er hvað mest og það jafnvel á einhvern mælikvarða sem Sameinuðu þjóðirnar nota. Ekki er vitað til þess að staða kynjanna sé á nokkurn hátt mismunandi að lögum hér á landi. Er „barátta fyrir jafnrétti kynjanna“ því líkleg til að draga mjög úr losun gróðurhúsalofttegunda hér á landi?
Að auki nefndi ráðherrann matarsóun, loftslagsvæna orku og landgræðslu sem lið í baráttunni gegn gróðurhúsalofttegunda. Gott og vel. Það er sjálfsagt að draga úr sóun og nýta loftslagvæna orku þar sem það hentar ásamt því að ganga vel um landið með því að hlífa því til að mynda við ríkisstyrktri beit.
En hvað með framræst land sem er uppspretta yfir 70% af losun gróðurhúsalofttegunda af manna völdum hér á landi líkt og kom fram í svari umhverfisráðherrans í vetur? Hvers vegna má aldrei minnast á það meginmál? Matarsóun, sem ráðherranum er mjög hugleikin, er kannski uppspretta 0,7% af heildarlosuninni. Hvers vegna er því haldið fram á fundum Sameinuðu þjóðanna að matarsóun sé sérstakt vandamál en ekki minnst á framræsta landið sem er sennilega með hundraðfalda losun á við matarsóunina?