Vefþjóðviljinn 142. tbl. 20. árg.
Íþróttafréttamenn víða um lönd hafa áttað sig á því fyrir margt löngu að það versta sem þeir geta gert fólki með mikla sýniþörf, eins og mönnum sem hlaupa naktir inn á knattspyrnuvöll, er að beina myndavélunum frá þeim.
Því miður virðast kollegar þeirra í almennum fréttum ekki allir hafa áttað sig á þessu.
Nýlega bar til að mynda Sema Erla Serdar formaður framkvæmdastjórnar Samfylkingarinnar kynþáttaníð af Facebook í íslenska fjölmiðla. Fjölmiðlar birtu það hiklaust þótt jafnvel væri ekki ljóst hvort ummælin væru eftir svonefnd nettröll. Í það minnsta voru þau dæmalaust rugl sem enginn hafði tekið mark á þar til Sema Erla hóf dreifingu þeirra. Þar með voru hin ógeðfelldu skilaboð komin í fyrirsagnir fjölmiðla og samfélagsmiðlarnir sáu svo um að skila því til þeirra sem misstu af fréttunum.
Annað dæmi er af frambjóðanda til embættis forseta Bandaríkjanna. Hann er hvað eftir annað ber að ósannindum og rangfærslum ásamt því að láta ofboðsleg fúkyrði dynja á keppinautum sínum, öðrum þjóðum og þjófélagshópum. Þetta kunnu fréttamenn aldeilis að meta og útvörpuðu af miklum móð. Því fráleitari sem ummælin voru því meiri athygli fengu þau. Nú eru fjölmiðlarnir nánast búnir að gera manninn að forsetaframbjóðanda Repúblíkana.
Auðvitað má það ekki verða þannig að engu rugli sé svarað en stundum er alveg augljóst að engin þörf á á því, nema menn vilji vekja athygi á sjálfum sér og sinni góðmennsku fyrir að andmæla sjónarmiðum sem flestir hafa skömm á.