Helgarsprokið 20. mars 2016

Vefþjóðviljinn 80. tbl. 20. árg.

Píratar í borgarstjórn hafna því að borgarbúar hafi nokkuð um það að segja hve borgarfulltrúar í Reykjavík séu margir. Sú ákvörðun skal koma frá ríkinu.
Píratar í borgarstjórn hafna því að borgarbúar hafi nokkuð um það að segja hve borgarfulltrúar í Reykjavík séu margir. Sú ákvörðun skal koma frá ríkinu.

Fyrr í vetur lögðu Sigríður Á. Andersen og fleiri þingmenn Sjálfstæðisflokksins fram tillögu til breytingar á sveitarstjórnarlögum sem myndi afnema þá lagaskyldu Reykjavíkur að fjölga borgarfulltrúum um að lágmarki 50% við næstu sveitarstjórnarkosningar.

Í greinargerð með frumvarpi þingmannanna segir:

Í 1. mgr. 11. gr. sveitarstjórnarlaga er kveðið á um fjölda sveitarstjórnarmanna í sveitarfélögum. Í 4. tölul. málsgreinarinnar segir að þar sem íbúar séu 50.000–99.999 skuli sveitarstjórnarmenn vera 15 hið fæsta en 23 hið flesta. Í 5. tölul. segir svo að þar sem íbúar séu 100.000 eða fleiri skuli sveitarstjórnarmenn vera „23–31 aðalmenn“, eins og það er orðað í lögunum. Augljóst er að nú og um fyrirsjáanlega framtíð er 5. tölul. ætlað að vera sérstakt ákvæði um fjölda sveitarstjórnarmanna í Reykjavík og samkvæmt því munu allt að „31 aðalmenn“ geta setið í borgarstjórn Reykjavíkur í senn.

   Borgarfulltrúar í Reykjavík eru nú 15 og hafa aldrei verið fleiri, að einu kjörtímabili undanskildu. Á kjörtímabilinu 1978–1982 var ákveðið að fjölga borgarfulltrúum úr 15 í 21 en strax á næsta kjörtímabili ákvað borgarstjórn að fækka þeim aftur í 15, og hefur síðan ekki séð ástæðu til að fjölga þeim aftur. Engin ástæða er til að löggjafinn þvingi borgaryfirvöld til slíkrar fjölgunar og er því lagt til að heimilt verði að borgarfulltrúarnir verði áfram 15. Með breytingunni er einnig lagt til að hámarksfjöldi borgarfulltrúanna verði færður niður í 23. Eins og áður var rakið hefur borgarstjórn aðeins einu sinni ákveðið að fjölga borgarfulltrúum svo þeir verði fleiri en fimmtán, og sú fjölgun var dregin til baka strax á næsta kjörtímabili. Engin ástæða er til að ganga svo langt í lögum að í borgarstjórn geti setið allt að „31 aðalmenn“, enda mun Reykjavíkurborg ekki hafa óskað eftir slíkri lagaheimild.

Nú hafa borist umsagnir við frumvarpið. Þar á meðal frá forsætisnefnd Reykjavíkurborgar. Ætli Píratar, Björt framtíð og aðrir í meirihluta borgarstjórnir fagni ekki örugglega að borgin sé losuð undan þeirri skyldu að fjölga borgarfulltrúum? Ætli þeir þeir fagni ekki auknu sjálfræði borgarinnar í þessum efnum?

Nei.

Halldór Auðar Svansson fulltrúi Pírata í forsætisnefndinni vill að borgin verði þvinguð með lögum til fjölgunar borgarfulltrúa úr 15 í 23 eða allt að 31. Hið sama gildir um fulltrúa Bjartrar framtíðar í forsætisnefndinni.

Píratar vilja hvorki að borgarstjórn né borgarbúar í almennri atkvæðagreiðslu fái nokkru um þetta ráðið.