Mánudagur 21. mars 2016

Vefþjóðviljinn 81. tbl. 20. árg.

Með lögum um kynjakvóta er komið raunverulegt glerþak. Konur hefðu orðið 80% stjórnarmanna í VÍS ef ekki hefði verið fyrir lögin.
Með lögum um kynjakvóta er komið raunverulegt glerþak. Konur hefðu orðið 80% stjórnarmanna í VÍS ef ekki hefði verið fyrir lögin.

Eins og menn vita er forsætisráðherra mjög áhugasamur um verndun gamalla húsa. Hann vill iðulega beita friðun, ef honum þykir nauðsyn krefja.

Því miður beinist friðunaráhugi stjórnvalda ekki eingöngu að gömlum húsum. Af einhverjum ástæðum hefur núverandi ríkisstjórn ákveðið að friða öll verk síðustu ríkisstjórnar, byltingarstjórnarinnar sem náði þingmeirihluta vorið 2009. Sú ríkisstjórn Jóhönnu og Steingríms, Katrínar og Össurar og þeirra, ætlaði að bylta þjóðfélaginu, eyðileggja stjórnarskrána, koma Íslandi í Evrópusambandið og breyta öllu sem hægt væri að breyta.

Strax eftir þingkosningarnar 2013 hefði verið eðlilegt að fara yfir öll verk vinstristjórnarinnar og afnema öll þau verstu. En ekkert slíkt hefur enn verið gert. Ráðherrar núverandi ríkisstjórnar virðast ekkert leggja til nema það sem embættismenn eða Evrópusambandið bera á borð fyrir þá.

Verkleysi ríkisstjórnarinnar á þessu sviði fékk minnisvarða í síðustu viku.

Þá varð að fresta aðalfundi Vátryggingafélags Íslands, eins stærsta fyrirtækis landsins, vegna þess að of fáir karlmenn voru í framboði til stjórnar. Í félaginu er fimm manna stjórn og aðeins lágu fyrir framboð fjögurra kvenna og eins karlmanns til stjórnarsetu. Þótt stjórnin sé fimm manna og fimm einstaklingar hafi boðið sig fram þá dugði það ekki, því vinstristjórnin lét leiða í lög að minnst tveir af fimm í hverri stjórn verði að vera af því kyni sem færri stjórnarmenn eru af.

Núverandi ríkisstjórn hefur ekki hreyft við þessum lögum. Viðskiptaráðherrann Ragnheiður Elín Árnadóttir hefur haft í öðru að snúast síðustu árin, náttúrupassinn og stjórnstöð ferðamála hafa auðvitað tekið tíma.

En þarna er þó loksins komið raunverulegt glerþak. Ef ekki hefði verið fyrir kynjakvótalögin þá hefðu konur væntanlega orðið 80% stjórnarmanna þessa hlutafélags næsta árið. En ríkið er búið að banna slíkt.

Og núverandi ríkisstjórn gerir ekkert í því. Eins og öðru sem vinstristjórnin gerði.

Hvað kemur stjórnmálamönnum við hvernig eigendur fyrirtækja velja stjórnarmenn til að gæta hagsmuna sinna?