Vefþjóðviljinn 358. tbl. 19. árg.
Trúin á örugglega á brattann að sækja meðal velsælla Vesturlandabúa. Allur aðbúnaður, atlæti og lækningar hafa tekið svo ævintýralegum framförum undanfarna áratugi að lífskjör forfeðra okkar eru okkur nánast óskiljanleg.
Margir finna því ekki hjá sér þörf fyrir trú og þekkja jafnvel engan sem reiðir sig á hana svo nokkru nemi. Engu að síður má reyna að skilja upp úr hverju trúin sprettur, hafa af því gagn og jafnvel sýna því örlítið umburðarlyndi að aðrir hafi ekki snúið við henni baki.
Í sumar varð fjölskyldugröf frá fyrri hluta síðustu aldar á vegi Vefþjóðviljans. Ekki þekkir Vefþjóðviljinn til fólksins umfram það sem kemur fram á legsteininum. Börn hjónanna dóu 19, 18, 15, 1, 0, 16 og 7 ára. Eiginmaðurinn féll frá árið sem síðasta barnið dó.
Fáir ef nokkrir á Vesturlöndum kynnast nú slíkum hörmungum sem margfaldur barnsmissir þessara hjóna og margra annarra samtíðarmanna þeirra hefur verið. Hvernig tókust menn á við harm af þessu tagi?
Ef þetta fólk eða aðrir í sömu sporum hafa fundið örlitla huggun og styrk í gömlu jólaævintýri frá Betlehem og kallað það trú er til nokkurs unnið.
Vefþjóðviljinn óskar lesendum sínum gleðilegra jóla.