Föstudagur 5. febrúar 2016

Vefþjóðviljinn 36. tbl. 20. árg.

Fáar ef nokkrar atvinnugreinar hafa búið við meira regluverk en fjármálakerfi Vesturlanda á árunum fyrir efnahagshrunið 2008. Á myndinni er blaðaauglýsing Andríkis frá 2009 sem sýndi nöfn þeirra laga og reglna sem í gildi voru á Íslandi 2008.
Fáar ef nokkrar atvinnugreinar hafa búið við meira regluverk en fjármálakerfi Vesturlanda á árunum fyrir efnahagshrunið 2008. Á myndinni er blaðaauglýsing Andríkis frá 2009 sem sýndi nöfn þeirra laga og reglna sem í gildi voru á Íslandi 2008.

Í gær dæmdi Hæstiréttur fjóra fyrrverandi starfsmenn Landsbanka Íslands hf. til langrar vistar í fangelsi fyrir brot sem nefnt er markaðsmisnotkun. Áður hafa fleiri bankamenn verið dæmdir fyrir slík brot, eins og flestir vita.

Þessir þungu dómar hljóta að hafa komið ýmsum á óvart. Sérstaklega þeim sem eftir bankahrunið og á fyrstu árunum eftir það hrópuðu og skrifuðu að hér hefðu „allar reglur verið afnumdar“.

Það er með ólíkindum hversu margir tóku undir þann söng. Hér voru bara „engar reglur“ heyrðist sagt aftur og aftur. En engum tókst að benda á reglurnar sem höfðu verið afnumdar enda giltu á Íslandi reglur sem voru sambærilegar við það sem tíðkaðist í löndunum í kring, þar á meðal í Evrópusambandslöndunum, sem einhverjir á Íslandi telja einmitt til mikillar fyrirmyndar á flestum sviðum.

Þegar farið verður yfir þjóðfélagsumræðuna á Íslandi fyrstu misserin eftir bankahrunið þá verður kenningin um að allar reglur hafi verið afnumdar á meðal mjög margra sem vekja munu furðu.