Vefþjóðviljinn 345. tbl. 19. árg.
Hér hefur stundum verið minnst á ítrekaðan tillöguflutning á Alþingi um að sett verði bann við „hefndarklámi“. Ríkisútvarpið hefur haft mikinn áhuga á því máli og er oft tekið fram í fréttatímum og fréttaþáttum að Björt framtíð hafi nú lagt til að „hefndarklám“ verði bannað.
Þessi fréttaflutningur Ríkisútvarpsins er mjög mikilvægur, því hann fræðir fólk um að „hefndarklám“ sé refsilaust, en verði refsivert ef hin mikilvæga tillaga Bjartrar framtíðar, sem Björt Ólafsdóttir hefur helst talað fyrir, verði að veruleika.
Meðal þeirra, sem þyrftu að kynna sér þessar fréttir Ríkisútvarpsins og tillögur Bjartar framtíðar, er Hæstiréttur. Hann heldur nefnilega að „hefndarklám“ sé þegar bannað og hafi verið lengi. Í gær dæmdi hann til dæmis mann í sex mánaða fangelsi fyrir að hafa birt nektarmyndir af fyrrverandi unnustu sinni á facebook. Með því þyngdi hann dóm yfir manninum, því héraðsdómur hafði áður dæmt hann í tveggja mánaða fangelsi fyrir þetta.
Og af því að Ríkisútvarpið hefur stundum áhuga á kynferði þeirra sem dæma í kynferðisbrotamálum þá er þess vafalaust skammt að bíða að þeir í Efstaleiti segi frá því að héraðsdóminn, um tveggja mánaða fangelsi, dæmdi ein kona, en Hæstaréttardóminn um sex mánaða fangelsi dæmdu þrír karlmenn.
Ekki er víst að þessi dómur verði til þess að nokkur maður skilji að „hefndarklám“ er þegar refsivert og tillaga Bjartrar framtíðar bara misskilningur. Og raunar meira en það, því ef hún verður samþykkt lækkar hámarksrefsing fyrir „hefndarklámi“ úr fjórum árum í tvö. Eins og Ríkisútvarpið hefur auðvitað sagt frá, jafn oft og menn geta ímyndað sér.
En það er engin þörf á að setja lagaákvæði um „hefndarklám“. Rétt eins og það er engin ástæða til að setja sérstakt ákvæði um „heimilisofbeldi“, sem er að sjálfsögðu refsivert samkvæmt núgildandi lögum.