Vefþjóðviljinn 309. tbl. 19. árg.
Nýlega var bent á það hér að hvorki umhverfisráðherra né Náttúrverndarsamtök Íslands hafi bent á leiðir, raunhæfar eða óraunhæfar, til að draga með markverðum hætti úr losun gróðurhúsalofttegunda af manna völdum hér á landi. Báðir aðilar hafa hins vegar gert sig breiða í fjölmiðlum að undanförnu með yfirlýsingum um að það verði að gera.
Í gær bættist Landvernd í þennan hóp þeirra sem krefjast mikils en leggja ekkert markvert til málanna. Í frétt Ríkisútvarpsins sagði svo frá:
Félagasamtökin Landvernd vilja að Íslendingar stefni að því að landið verði kolefnishlutlaust, að dregið verði eins mikið úr losun gróðurhúsalofttegunda og hægt er. Samtökin kalla eftir áætlun frá stjórnvöldum um hvernig eigi að standa við loforð um að draga úr mengun.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, framkvæmdastjóri Landverndar segir að Íslendingar geti t.d. rafvætt bílaflotann. Það sé mjög fýslilegur kostur.
„Það þarf líka að takast á við skipaflotann og finna leiðir til að minnka losun þar og það sem meira er við getum ekki farið að bæta við losun í stóriðjunni. Ef að kemur til þessara þriggja nýju kíslilvera sem að nú eru í umræðunni þá mun losun íslendinga aukast um heil 20%.“
Bílar og skip eru hins vegar léttvæg þegar heildarlosun af manna völdum á Íslandi er skoðuð. Landvernd hefur því enga hugmynd um hvernig draga megi úr losun svo nokkru nemi.
Í næsta mánuði munu safnast saman í París um 50 þúsund manns sem flestir munu mæta á þotum knúnum steinolíu, fyrstu og elstu afurð jarðolíubyltingarinnar á 19. öld. Hætt er við að þessir tvöhundruð flugvélafarmar hafi fátt til málanna að leggja umfram það að setja kröfur á blað.
Reykjavíkurborg telur sig hafa efni á að senda fjóra flugvélabekki á vettvang.