Vefþjóðviljinn 308. tbl. 19. árg.
Aðalsjóður Reykjavíkurborgar er sífellt rekinn með halla. Þetta viðurkennir meira að segja núverandi meirihluti fjórflokksins, Samfylkinarinnar, Pírata, Vinstrigrænna og Bjartrar framtíðar. Meirihlutinn viðurkennir líka að þetta bendi til þess að skatt- og þjónustutekjur standi ekki undir rekstri málaflokka borgarinnar. Þetta kemur fram í frumvarpi þeirra að fjárhagsáætlun borgarinnar, en sagt er frá þessu í Morgunblaðinu í dag.
Þetta er dæmigert fyrir svo margt í íslenskum stjórnmálum.
Stjórnmálamenn eyða og eyða peningum skattgreiðenda. Þeir þora aldrei í raunverulegan niðurskurð og uppstokkun. Það mesta sem þeir gera er að gera „hagræðingarkröfu“, 1 til 2% milli ára, í mesta lagi.
Séu stjórnmálamennirnir sérstaklega hræddir og sannfæringarlausir skilja þeir meira að segja útgjaldafrekstustu málaflokkana eftir og gera þar enga „hagræðingarkröfu“.
Í raun þarf ekki aðeins verulegan niðurskurð opinberra útgjalda heldur grundvallarendurskoðun á hlutverki hins opinbera. Það væri engan veginn nægilegt að lækka útgjöld um 1%, af og til. Það þarf að fækka mjög verulega verkefnum hins opinbera. Og hér ekki nægilegt að ræða málin, eða gaspra í einstökum viðtölum en gera svo aldrei neitt. Það þýðir ekki að setja fram ómarkvissar hagræðingartillögur í einhvers konar umræðuformi og gera svo ekkert.
Það verður að skera verulega niður og það strax.
En því þorir enginn. Stjórnmálamenn eru upp til hópa sannfæringarlitlir, nema þá í einhverjum einstökum tilfinningamálum.
Það er alveg dæmigert að borgarfulltrúar í Reykjavík hafa þanið borgarkerfið út á ógnarhraða, án þess að nokkur hafi gert neitt til andófs við því. Minnihlutinn hefur verið ákaflega daufur í stjórnarandstöðunni og stundum erfitt að greina að yfirleitt sé nokkur minnihluti.
Það er líka alveg dæmigert að ráðamenn Reykjavíkurborgar hafa nær ekkert aðhald fengið frá fjölmiðlum, við samfellda skuldasöfnun og útgjaldaaukningu borgarinnar. Síðasti borgarstjóri, Jón Gnarr, var til dæmis nær alveg látinn í friði þegar kom að alvörumálum. Þá sjaldan sem hann var spurður um þau vissi hann ekki neitt. Það þótti bara sýna hvað hann var „einlægur“.