Vefþjóðviljinn 244. tbl. 19. árg.
Rætt var við Anton Vasiliev sendiherra Rússlands á Íslandi í síðasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Þar segir sendiherrann meðal annars:
En öndvert við það sem hefur verið sagt, þá eru hvorki rússneskir hermenn né rússnesk hergöng í Austur-Úkraínu.
Vesturlönd brugðust engu að síður við stríðsrekstri Pútíns á Krímskaga og í Austur-Úrkaínu með því að loka á hergagnasölu til Rússlands og takmarka ferðir og fésýslu helstu samverkamanna Pútíns í vopnaskakinu. Þetta eru aðgerðir á pari við það sem hryðjuverkamenn og aðrir yfirgangsmenn víða um lönd mega þola af hálfu vestrænna þjóða. Pútín svaraði þessu með því að setja matarinnflutningsbann á rússneskan almenning!
Stríðsherrarnir í Kreml eiga bágt með að komast á leik í enska, í skútuna á Marbella og geta ekki flutt fé úr rússnesku ríkisbönkunum sínum til Vesturlanda, já þá skal sko rússnesk alþýða ekki fá íslenskan makríl, danska svínasteik, írskan ost eða pólska ávexti á diskinn sinn.
Það er augljóst af ýmsu því sem sendiherrann segir í viðtalinu við Viðskiptablaðið að hann hefur hlustað vel eftir þeim röddum hér á landi sem höfðu efasemdir um að Ísland ætti að taka þátt í aðgerðum hins frjálsa heims gegn þeim hópi manna sem gera út hryðjuverkamenn í Austur-Úkraínu. Hann endurómar þessar raddir samviskusamlega. Ísland á að „taka fyrsta skrefið“ og segja sig frá aðgerðum Vesturlanda í von um að Pútín opni aftur fyrir innflutning sjávarafurða frá Íslandi.
Því miður fyrir Vasiliev sendiherra virðast flestir íslenskir stjórnmálamenn átta sig á því að með því að fara að óskum hans væru Íslendinga að láta viðskiptaþvinganir Pútíns virka eins og Pútín vonast til.