Fimmtudagur 9. júlí 2015

Vefþjóðviljinn 190. tbl. 19. árg.

Fjármálaráðherra hefur þegar grisjað vörugjaldafrumskóginn og nú legggur hann til atlögu við tollakerfið.
Fjármálaráðherra hefur þegar grisjað vörugjaldafrumskóginn og nú legggur hann til atlögu við tollakerfið.

Afnám almennra vörugjalda á síðasta ári er eitt besta verk ríkisstjórnarinnar. Vörugjöldin skiluðu ríkissjóði tiltölulega litlum tekjum en voru flókin, mismunuðu og höfðu mikinn kostnað í för með sér fyrir fyrirtæki og þar með neytendur.

Vörugjöldin höfðu það þó umfram tolla að þau lögðust á vörur sama hvaðan þær komu. Tollar leggjast hins vegar einungis á varning sem kemur frá löndum utan evrópska efnahagssvæðisins og mismuna því eftir þjóðerni. Tollakerfið er einnig flókið og dýrt fyrir bæði greiðendur og ríkissjóðinn sem innheimtir ásamt því að skila til þess að gera litlum tekjum.

Í Morgunblaðinu í dag segir Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra að stefnt sé að því að afnema tolla af öllum innflutningi nema matvælum í ársbyrjun 2017. Bjarni segir þessar aðgerðir „hugsaðar til þess að lækka vöru­verð, auka gegn­sæi í verðmynd­un, bæta sam­keppn­is­hæfni og auka skil­virkni og nýta þannig bet­ur fram­leiðsluþætt­ina.“

Þetta eru ánægjuleg tíðindi þótt matvælin sitji vissulega eftir í þessari umferð.