Vefþjóðviljinn 34. tbl. 19. árg.
Á dögunum sendi „kærunefnd jafnréttismála“ frá sér þá niðurstöðu að Kópavogsbær hefði brotið jafnréttislög með því að borga karlmanni hærri laun en konu. Kópavogsbær leysti málið strax, lækkaði laun karlsins og þar með fengu hann og konan sömu laun.
En þá kom í ljós að það nægði ekki til þess að jafnréttishöfðingjarnir yrðu ánægðir. Það mátti alls ekki leysa málið svona. Bærinn átti auðvitað að hækka laun konunnar.
Samt var búið að leysa það sem átti að vera vandamálið. Hvorki meira né minna en „óútskýrður launamunur“, sem jafnréttisiðnaðurinn getur alltaf útskýrt ef svo hittist á að hann er milli karls og konu, en hefur engan áhuga á ef hann er milli tveggja karla eða tveggja kvenna.
Hversu oft ætli mætti finna „óútskýrðan launamun“ milli tveggja karla sem vinna „sambærileg störf“, ef einhver væri að leita? Ef einhvers staðar væru reknar opinberar nefndir og opinberar stofnanir sem hægt væri að snúa sér til og fá til að neyða atvinnurekandann til að hækka laun Péturs upp í það sama og Páll á næstu skrifstofu fær?
Hið opinbera hefur engan áhuga að finna slíkan launamun. Fréttamenn hafa engan áhuga á að fá tölur um hann. Jafnréttisiðnaðurinn heldur einfaldlega að til séu „Allir karlmenn“ og „Allar konur“, og einhvers staðar sitji atvinnurekendur og hugsi um hvernig þeir geti hyglað „Öllum körlum“ en níðst á „Öllum konum“.
Yfirleitt trúa menn því að atvinnurekendur hugsi um að minnka útgjöld sín. Halda launakostnaði niðri.
Nema þegar „óútskýrður launamunur“ berst í tal. Þá breytast atvinnurekendurnir úr þessum nískupúkum í samsærismenn sem sitja á skrifstofunni og fara yfir starfsmannaskrána og hugsa með sér: „Hvað er að gerast? Ég er að borga Guðmundi verkfræðingi sama og Guðfinnu mannauðsstjóra. Hann er karlmaður eins og ég. Þetta er gegn reglum leynifélagsins. Guðrún, viltu biðja hann Guðmund um að koma til mín. Já og farðu með nokkra vindla inn í bakherbergi, við fundum þar.“