Föstudagur 14. nóvember 2014

Vefþjóðviljinn 318. tbl. 18. árg.

Áfall fyrir ríkisstjórnina. Þeir sem styðja rangnefnda leiðréttingu svokallaðs forsendubrests eru jafnvel færri en þeir sem fengu peningagjöfina.
Áfall fyrir ríkisstjórnina. Þeir sem styðja rangnefnda leiðréttingu svokallaðs forsendubrests eru jafnvel færri en þeir sem fengu peningagjöfina.

Fréttablaðið birti í morgun niðurstöður könnunar á því hvort menn væru „sáttir við skuldaleiðréttingu ríkisstjórnarinnar“. Könnunin var gerð 12. – 13. nóvember, það er dagana eftir að hátt í hundrað þúsund einstaklingar fengu tilkynningu um peningagjöf frá ríkinu.

Samkvæmt könnuninni eru 41% sátt við „skuldaleiðréttinguna“, 32% segjast ekki vera sátt og 27% eru óákveðin eða neita að svara.

Þessar niðurstöður hljóta að vera áfall fyrir ríkisstjórnina. Í fyrsta lagi hefur dregið úr stuðningi við þessar aðgerðir frá því Félagsvísindastofnun kannaði hug manna til þeirra fyrir ári. Allt umsóknarferlið, áróðusstríðið í auglýsingum og trúboðssamkomur í Hörpunni hafa farið fyrir lítið.

Um 56.000 af 124.000 heimilum í landinu fengu „leiðréttingu“ að þessu sinni eða um 45% heimila. Það er ákveðið heilbrigðismerki að jafnvel hluti þeirra sem var að fá peningagjöfina frá skattgreiðendum áttar sig á því að þarna er óhreint mjöl í pokahorninu. Nema hann hafi viljað fá meira!

Það er áfall fyrir stjórnvöld, sem segjast vera að vinna að því „leiðrétta forsendubrest“, segjast hafa „réttlætisrök“ fyrir aðgerðum sínum og eyða 80 þúsund milljónum króna til að þessi mikla „sanngirni“ nái fram að ganga, að hið mikilfenglega mál skuli ekki njóta almenns stuðnings.

Svo má velta fyrir sér hver niðurstaða könnunar af þessu tagi væri ef ekki væri notast við orwellsk öfugmæli eins og „leiðréttingu“ í spurningunni. Hvað kæmi út úr svona könnun ef hreinlega væri spurt: Ertu fylgjandi eða andvígur þeirri ákvörðun að færa 80 milljarða af af verðtryggðum húsnæðislánum einstaklinga yfir á ríkissjóð?