Laugardagur 15. nóvember 2014

Vefþjóðviljinn 319. tbl. 18. árg.

Í gær var hér minnst á skoðanakönnun sem Fréttablaðið kvaðst hafa gert um viðhorf landsmanna til „skuldaleiðréttingarinnar”. Samkvæmt niðurstöðunum kvaðst meirihluti þeirra sem afstöðu tók vera „sáttur” við hana, en munurinn á þeim og hinum “ósáttu” var þó ekki nema um 9% af öllum hópnum sem svaraði.

Nú má láta þessar niðurstöður liggja á milli hluta. Spurningin sjálf er hins vegar nokkuð furðuleg, þótt fjölmiðillinn sem lagði hana fyrir virðist ekki hafa séð neitt að henni.

Spurningin var þessi: „Ertu sátt/ur við skuldaleiðréttingu ríkisstjórnarinnar?”

Það blasir við að svör við þessari spurningu, já eða nei, eru gagnslaus.

Taka má dæmi af fjórum svarendum.

Sá fyrsti telur að ríkið eigi að taka á sig alla hækkun verðtryggðra lána á þessum tíma. Bæði húsnæðislána og annarra, svo sem námslána. Hann telur líka að forsendubrestur sinn eigi að miðast við enn lægri verðbólgu en stjórnvöld ákváðu. Hann telur „leiðréttinguna” vera jákvætt framtak en einungis hænuskref í rétta átt. Hverju á hann að svara? Ef hann segist vera „sáttur”, þá geta stjórnvöld skilið svarið sem að hann sé hæstánægður og þau hafi gert nóg. Ef hann segist vera “ósáttur” þá gætu þau skilið svarið sem hann telji að alls ekki eigi að lækka skuldirnar með þessum hætti. Þessi maður er hins vegar ánægður með það sem komið er, en vill að miklu lengra verði gengið. Er hann „sáttur” eða „ósáttur”?

Annar svarandi hefur alltaf verið á móti þessum aðgerðum. Hann telur að ekki hafi orðið neinn forsendubrestur og að ríkið eigi ekki að bæta hann. Fyrir síðustu kosningar trúði hann því hins vegar að það myndi kosta 300 milljarða að framkvæma slíkar aðgerðir. Hann er mjög feginn að það kosti „ekki nema” áttatíu milljarða. Hann hugsar með sér að þessar aðgerðir hafi auðvitað verið rangar og óþarfar, en þetta hafi þó farið miklu betur en hann hafði óttast. Er hann „sáttur” eða „ósáttur”? Ef hann segist vera ósáttur, taka stjórnvöld því þá sem ákalli um meiri aðgerðir? Ef hann segist vera „sáttur” er hann þá að senda þau skilaboð að það hafi verið rétt að standa fyrir þessum aðgerðum?

Þriðji telur skuldalækkanir eðlilegar en hefur áhyggjur af því að bankaskatturinn standist ekki. Hann hefði viljað reyna samninga við „hrægammana” og ekki borga neitt út fyrr en tryggt væri að sérstök fjármögnun væri í lagi. Honum finnst hins vegar úthlutunarreglurnar sanngjarnar. Er hann „sáttur” eða „ósáttur”?

Sá fjórði er mjög ánægður með bankaskattinn og finnst allt í lagi að lækka skuldirnar. Enn betra hefði hins verið að lækka skuldir ríkissjóðs og byggja nýjan spítala. Af öllum góðum kostum hafi sá að lækka skuldirnar verið sístur. Er hann „sáttur” eða „ósáttur”?

Menn geta haft hvaða skoðun sem er á skuldalækkuninni, að hún sé í grundvallaratriðum röng, að hún sé of dýr, að hún gangi of langt, að hún gangi of skammt. En einföld spurning um hvort menn séu „sáttir” er þýðingarlaus.