Vefþjóðviljinn 245. tbl. 18. árg.
Píratar eru menn „upplýsingafrelsis“ sem snýst um að taka upplýsingar ófrjálsri hendi og senda þær á fjölmiðla eða í dreifingu á netinu.
Sem kunnugt er komust píratar í meirihluta við stjórn Reykjavíkurborgar nú í sumar og bera þar með ábyrgð á stjórn Orkuveitu Reykjavíkur.
Frá því er sagt í Fréttablaðinu í dag að fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í stjórn OR lögðu fyrr í sumar fram tillögu um að gera opinberar upplýsingar um framleiðslu virkjana félagsins.
„Teljum við að upplýsingar um framleiðslu virkjana OR eigi tvímælalaust að vera almenningi tiltækar eins og upplýsingar um rekstur annarra fyrirtækja í almannaeigu,“ segir í bókun sjálfstæðismannanna Kjartans Magnússonar og Áslaugar Friðriksdóttur á stjórnarfundi síðastliðinn föstudag.
Meirihluti stjórnar Orkuveitunnar sem starfar í skjóli VG, Samfylkingar, Bjartrar framtíðar og Pírata hefur hins vegar ekki viljað taka tillöguna til afgreiðslu.