Mánudagur 1. september 2014

Vefþjóðviljinn 244. tbl. 18. árg.

Það er verið að ráða nýja höfðingja í Brussel. Á dögunum var valinn nýr forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. Fyrir fram hafði David Cameron forsætisráðherra Bretlands hótað því að byrja að berjast fyrir úrsögn Bretlands úr Evrópusambandinu, ef Jean-Claude Juncker, fyrrverandi forsætisráðherra Luxemborgar, yrði fyrir valinu. Cameron barðist um á hæl og hnakka og svo var Juncker valinn.

Bretland hafði engin áhrif á þetta. Sennilega er Bretland of stórt ríki. Eins og íslenskir vísindamenn vita hafa smáríki gríðarleg „áhrif“ innan Evrópusambandsins, bara ef þau komast „að borðinu“. Þetta hefur verið rætt í ótal þáttum Spegilsins.

Eftir tilnefningu Junckers sagði forsætisráðherra Bretlands að landið væri nú komið í „stríð“ í Evrópu. Í Brussel er öllum sama. Það skiptir ráðamenn Evrópusambandsins engu Bretlandi finnst. Enn minna varðar þá svo um hvað almenningi í Evrópusambandslöndunum finnst. Hann er aldrei spurður að neinu, honum eru bara birtar „tilskipanir“.

Þá voru þeir að velja Pólverjann Donald Tusk sem forseta „leiðtogaráðs“ Evrópusambandsins og Ítalann Frederica Mogherini sem „utanríkismálastjóra“ Evrópusambandsins. Svo eindregið stefna höfðingjarnir að evrópsku sambandsríki að þeir hafa komið sér upp sérstökum „utanríkismálastjóra“.

Ekkert bendir til þess að almennir kjósendur í Evrópusambandslöndnum vilji að unnið sé að þessu sambandsríki. En það skiptir höfðingjana engu máli. Kjósendur ráða engu um þróun Evrópusambandsins heldur fá bara birtar tilkynningar um nýja framkvæmdastjórn, nýja utanríkismálastjóra og nýjar tilskipanir ókosinna manna sem næstum enginn veit hvað heita.

En á Íslandi eru það þeir sem ákafast tala um lýðræði og gagnsæi sem heitast vilja koma Íslandi inn í þetta sama samband. Núverandi ríkisstjórn hefur á sextán mánuðum ekki náð að afturkalla inngöngubeiðnina sem þessir lýðræðissinnar létu landið senda til Brussel, og þá var nú ekki þörf á að slík ákvörðun yrði borin undir kjósendur. Slík krafa varð ekki til fyrr en þeir sjálfir misstu þingmeirihlutann. Og sextán mánuðir hafa ekki dugað stjórnvöldum til að segja skýrt að ekki þarf þjóðaratkvæðagreiðslu til að afturkalla ákvörðun sem tekin var án þjóðaratkvæðagreiðslu.