Vefþjóðviljinn 130. tbl. 18. árg.
Framboð Guðna Ágústssonar fyrir Framsóknarflokkinn í vor, er algerlega dæmigert fyrir forystu ríkisstjórnarflokkanna.
Framsóknarmenn ætluðu að bjóða Guðna fram. Það hefði gefið þeim góða von. Hann hefði líklega náð kjöri og framboð hans hefði skaðað ýmis önnur framboð, meðal annars vegna þess að einhverjum finnst Guðni skemmtilegur maður og eftir nokkra umræðuþætti hefði samanburður orðið mörgum öðrum forystumönnum töluvert óhagstæður. En án Guðna mun enginn slíkur samanburður fara fram.
Vinstrimenn urðu greinilega mjög hræddir við væntanlegt framboð Guðna. Þeir réðust mjög gegn hugmyndinni og framsóknarmenn og Guðni þurftu að þola nokkra daga af stóryrðum. Meira að segja einhverjir brandarar sem Guðni átti að hafa sagt á þorrablóti áttu að gera það að verkum að ekki mætti kjósa hann í borgarstjórn. Svona eins og menn hefðu ekki átt að kjósa Jón Gnarr vegna einhvers sem hann hefði sagt í Tvíhöfða.
Það var algerlega á valdi Guðna og Framsóknarflokksins að bjóða hann fram. Báðir vildu það. En það tókst ekki.
Þetta er alveg dæmigert fyrir núverandi forystumenn stjórnarflokkanna.
Þeim bara ætlar ekki að takast að sjá til þess að Ísland verði ekki lengur umsóknarríki að Evrópusambandinu.
Engu skiptir þótt yfirgnæfandi meirihluti þingmanna vilji ekki að Ísland gangi í Evrópusambandið. Engu skiptir hvað almennir flokksmenn samþykkja. Í hvert sinn sem stjórnarandstaðan byrstir sig og áróðursmenn hennar utan þings, virðast forystumenn ríkisstjórnarinnar missa fótanna. Og eftir það verður öll umræða á forsendum vinstriflokkanna og áróðursmanna þeirra.