Vefþjóðviljinn 129. tbl. 18. árg.
Reglulega verður uppnám í fjölmiðlum og samfélagsmiðlum vegna umbúða, ekki síst vegna umbúða utan um matvæli. Alvörugefnir góðborgarar gefa sig fram og láta eins og umbúðir séu til fyrir misskilning eða illsku framleiðenda sem vilji sóða út Jörðina.
Í þættinu Í garðinum með Gurrý II í síðustu viku fór Guðríður Helgadóttir garðyrkufræðingur nokkrum orðum um umbúðamálið:
Í sumum tilfellum getur borgað sig að hafa umbúðir utan um vörur. Eins og til að mynda þegar við erum með ferskvöru eins og grænmeti. Þar hefur verið sýnt fram á það í dönskum rannsóknum að grænmeti sem er pakkað í umbúðir endist þrisvar til fjórum sinnum lengur en grænmeti sem er ekki pakkað og er þá í lausu. Það er miklu minni sóun á grænmetinu sjálfu ef því er pakkað í umbúðirnar. Þannig í einhverjum tilfellum verður maður að brjóta odd af oflæti sínu og sætti sig við að umbúðirnar séu kannski góðar.
Guðríður bætti svo við að auðvitað skipti máli um hvers kyns umbúðir væri að ræða og nefndi að barnaleikföng séu á tíðum pökkuð undarlega vandlega inn. Stundum þarf hreinlega að draga fram verkfæri til að fjarlægja umbúðirnar.
Án þess að Vefþjóðviljinn viti það fyrir víst má ef til vill rekja þessa umbúðaáráttu leikfangaframleiðenda til þess að með leikföngum fylgja oft freistandi litlir hlutir sem hætt er við að ungabörn stingi upp í sig ef þau gætu sjálf tekið þá úr umbúðunum.