Helgarsprokið 2. febrúar 2014

Vefþjóðviljinn 33. tbl. 18. árg.

Fylgi fjórflokksins ógurlega hefur minnkað undanfarin en hvers vegna og hverju hefur það skilað?
Fylgi fjórflokksins ógurlega hefur minnkað undanfarin en hvers vegna og hverju hefur það skilað?

Gísli Marteinn Baldursson sjónvarpsmaður birti á dögunum línurit sem sýnir fylgi „fjórflokksins“ ógurlega frá árinu 1999 í könnunum.

Að sjálfsögðu staldra menn fyrst við „hrunið“ þegar þessi mynd er skoðuð. Er það ekki hin augljósa skýring á minnkandi fylgi „fjórflokksins“? Það er hið minnsta handhæg skýring að fylgi við hefðbundna flokka geti minnkað á umrótsskeiði, þótt í ljósi reynslu síðustu sex ára megi kannski færa rök fyrir því að það hafi ekki verið gæfuspor.

Bankahrunið er hins vegar svo yfirgnæfandi á þessu skeiði að aðrir áhugaverðir hlutir hverfa oft í hávaðanum frá því.

Til að mynda má alveg halda því til haga að árið 2007 tóku gildi lög um fjármál stjórnmálaflokka þar sem flokkum var nánast bannað að taka við frjálsum framlögum frá einstaklingum og lögaðilum. Um leið voru ríkisstyrkir til stjórnmálaflokka auknir á þann máta sem hæfði því ári.

Starfsemi stjórnmálaflokkanna var ríkisvædd.

Hin nýju lög tryggja flokkum og framboðum miklu meira og tryggara fé en þau höfðu áður aðgang að. Það er jafnvel þannig að framboð þurfa ekki að ná kjöri til að hljóta milljónir í árleg ríkisframlög út kjörtímabilið. Þeim dugir að fá 2,5% fylgi.

Að sjálfsögðu hefur þetta þau áhrif að fleiri láta vaða og leggja meira undir því það er ekki aðeins von á nokkrum þingmönnum eða bæjarfulltrúum heldur verða auglýsingareikningar hreinsaðir upp og mögulegt er að reka einhvers konar flokksskrifstofu, þótt oft endi þessi ævintýr með þeim ósköpum að flokksmenn togist á um ríkisstyrkinn.

Í skýrslu nefndar flokkanna fimm sem samdi frumvarpið um fjármál stjórnmálaflokka var bent á að auk Íslands hafi engin lög um fjármögnun stjórnmálastarfsemi verið í Evrópulöndunum Sviss og Lúxemborg. Nefndin gerði enga beina tilraun til að nýta sér þessa staðreynd til að renna stoðum undir nauðsyn slíkra laga. Enda eru þessi lönd síður en svo þekkt að stjórnmálaspillingu.

Ísland var í fyrsta sæti á lista Transparency International árið 2006 yfir þau lönd sem þar sem minnsta spillingu mátti finna og Sviss í sjöunda sæti og Lúxemborg í því ellefta. Bretland, Bandaríkin, Þýskaland og Frakkland voru fyrir neðan þessi þrjú ríki þótt þar hafi verið í gildi lög um fjármála flokka.

Alþjóðlegar kannanir af þessu tagi segja auðvitað ekki alla söguna og eru byggðar að mestu leyti á huglægum þáttum en það er þó hægt að segja að ekkert í þessum könnunum bendi til að skortur á boðum og bönnum um fjármál flokka og framboða valdi stóraukinni spillingu.

Eftir að lögin um fjármál flokkanna voru sett hér á landi hefur heldur hallað undan fæti hjá Íslandi í könnunum Transparency International. Eins og sjá má í töflunni hér að neðan hefur Ísland fallið í einkunn undanfarin ár. Það virðist hvorki hafa dugað til að halda í ágætiseinkunn að fjórflokkurinn hafi tapað fylgi né að stjórnmálin væru ríkisvædd.

image
image