Vefþjóðviljinn 339. tbl. 15. árg.
Fyrir stuttu varð mikil og löng fjölmiðlaumfjöllun um að ekki kæmust nægilega mörg ung börn í vist á leikskólum Reykjavíkurborgar. Fréttamenn Ríkisútvarpsins höfðu svo gríðarlegan áhuga á málinu að engu var líkara en þeir hefðu sjálfir mikla ómegð á biðlistunum. En lengi vel létu þeir sér þó nægja að ræða við foreldra og lágt setta stjórnmálamenn en oddvitarnir Jón og Dagur voru látnir í friði. Loks beindust kastljósin þó að Jóni Gnarr. Hann taldi, réttilega, að borgin hefði ekki of mikla peninga. En síðar bætti hann í og taldi fólk einfaldlega eignast of mörg börn. Væri ekki ráð að reykvískir karlmenn færu bara í ófrjósemisaðgerðir í stað þess að fylla alla biðlista af krökkum?
Viðbrögðin við þessu voru lýsandi fyrir áberandi atriði í íslenskum fjölmiðlum. Enginn fjölmiðill gerði athugasemd við þessa tillögu borgarstjórans í Reykjavík. Stöð 2 gerði hins vegar nokkrar fréttir um ófrjósemisaðgerðir og hvað þær væru nú einfaldar fyrir karlmenn.
Hvernig halda menn að fjölmiðlar og álitsgjafar hefðu látið ef einhver raunverulegur stjórnmálamaður hefði svarað á þennan hátt? Ef til dæmis Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Birgir Ármannsson eða Einar K. Guðfinnsson hefðu stungið upp á ófrjósemisaðgerðum sem lausn á skorti á dagheimilisplássi. Það hefðu allir gengið af göflunum.
Undanfarin ár hafa margir fjölmiðlamenn verið í mikilli herferð gegn stjórnmálaflokkunum. Þeir sem gagnrýna flokkana, jafnvel eingöngu með innihaldslausum frösum, eru sífellt sóttir sem gestir í umræðuþættina eða vitnað í þá með velþóknun. Sífellt er ýtt undir að til sé einhver skelfilegur „fjórflokkur“ sem allir upplýstir menn vilji losna við.
Og hluti af þeirri herferð er að alls ekki má gera sömu kröfur til „nýju framboðanna“ og „þeirra gömlu“. Af sömu ástæðu eru birt samfelld viðtöl við Guðmund Steingrímsson um ekkert.