Laugardagur 2. júlí 2011

183. tbl. 15. árg.

Þ rátt fyrir að Sjálfstæðisflokkurinn hafi stýrt fjármálaráðuneytinu samfellt frá 1991 til 2009 varð honum lítt ágengt við að grisja frumskóg innflutningsgjalda. Auk virðisaukaskatts eru bæði tollar og vörugjöld lögð á innflutning. Leitun er að tveimur vörutegundum sem bera sömu gjöld og ýmis dæmi eru um að sama vörutegund beri mismunandi gjöld líkt og vélar sem hita brauð á heimilum en þá skilur milli feigs og ófeigs hvort brauðið er hitað lárétt eða lóðrétt.

Til að gæta allrar sanngirni má þó geta þess að vörugjöld í bíla voru einfölduð nokkuð á valdatíð Sjálfstæðisflokksins þótt enn væru að minnsta kosti fjórir flokkar vörugjalda til staðar og byrjað væri að hygla “umhverfisvænum” bílum þegar flokkurinn hvarf úr ríkisstjórn. Steingrímur J. Sigfússon er að sjálfsögðu búinn að leiðrétta þessa einföldun og innflutningsgjöld á bíla lúta nú frumskógarlögmálinu sem aldrei fyrr með áherslu á græna hluta skógarins.

Væri Steingrímur sæmilegar klókur stjórnmálamaður, en léti ekki einvörðungu stjórnast af heift út í pólitíska andstæðinga og kjósendur fyrir að halda sér utan ríkisstjórnar 85% af þaulsetunni í þinginu, myndi hann að sjálfsögðu gera Sjálfstæðisflokknum það til háðungar að einfalda vörugjöldin og tollana.

Hvernig liti Geir H. Haarde, sem sat í fjármálaráðuneytinu í átta ár, út ef Steingrímur hreinsaði sem snöggvast til í innflutningsgjöldunum?

Nei, nei, í stað þess dregur hann Geir fyrir dóm fyrir að koma ekki í veg fyrir að einkabankar færu sér að voða.

Steingrímur gæti jafnframt með þessu sýnt og sannað að Íslendingar þurfa ekki að ganga í Evrópusambandið til að breyta tollum og öðrum innflutningshöftum.