Helgarsprokið 9. janúar 2011

9. tbl. 15. árg.

E f nokkur hagfræðikenning fellur að því brasi sem efnahagur Vesturlanda hefur átt í undanfarin ár er það kenning austurríska skólans um hagsveifluna. Árið 1969 skrifaði bandaríski hagfræðingurinn Murray N. Rothbard til að mynda litla ritgerð um þessa kenningu, Efnahagskreppur: Orsök þeirra og lækning. Þar veltir hann því fyrir sér hvaða villuljós leiði fyrirtæki í stórum stíl í taprekstur.

Og reyndin er sú, ef litið er yfir efnahagslífið á dæmigerðum degi ársins, að taprekstur er ekki mjög útbreiddur. En fyrst svo er, blasir við skringileg staðreynd sem þarf að útskýra: – hvernig má það vera að reglubundið, á tímum þegar efnahagslægð ber að garði, en þó sérstaklega í snörpum kreppum, að viðskiptalífið skuli allt í einu verða fyrir hrinu af stórfelldu tapi? Stund rennur upp þar sem fyrirtæki almennt – sem fram að því gekk prýðilega að græða og forðast tap – fara næstum öll skyndilega að tapa á ískyggilegan og óskiljanlegan hátt? – Hvernig má það vera? Hér er á ferð yfirþyrmandi staðreynd sem kenningar um kreppur verða að geta útskýrt. Skýringar eins og „ónóg eyðsla“ – minnkuð samanlögð eyðsla neytenda – eru ekki nægjanlegar. Ekki síst vegna þess að það sem þarfnast skýringar við er hvers vegna kaupsýslumenn – sem fram að því gátu spáð fyrir um allra handa breytingar og framvindu í kaupskapnum – reyndust nú með öllu ófærir um að sjá fyrir hina meintu ónógu eyðslu, með hörmulegum afleiðingum. Hví bregst mönnum spádómsgáfan fyrirvaralaust með þessum hætti?

Frambærileg kenning um kreppur verður því að geta útskýrt þessa tilhneigingu efnahagslífsins til að ganga í gegnum þembur og skelli, þar sem ekki sjást nein merki um að það leiti í lygnan farveg, eða stillilega framfarabraut, – nálgun við jafnvægisstöðu. Einkum og sér í lagi þarf kenning um kreppur að geta skýrt þennan engisprettufaraldur af mistökum, sem birtist fyrirvaralaust þegar efnahagsvandi knýr dyra, og helst við á kreppuskeiðinu uns fer að rofa til. Og til er þriðja algilda staðreyndin sem kenning um hagsveifluna þarf að geta skýrt. Undantekningalaust eru þembur og skellir sýnu meiri á sviði „ fjárfestingavöru“ – sumsé í framleiðslu tækja og búnaðar, hrávöru eða byggingaframkvæmda til iðnaðar – en á sviðum sem búa til neysluvarning. Þá er komið enn eitt um hagsveifluna sem þarf að útskýra – og sem augljóslega verður ekki skýrt með kreppukenningum eins og hinum sívinsæla lærdómi um ónóga eyðslu: að neytendur eyði ekki nóg í neysluvörur. Því ef skúrkurinn er ónóg eyðsla, hvernig má þá vera að smásöluverslun sé síðust til, og bíði minnst skakkaföll í öllum kreppum? Og að kreppan skuli af fullum þunga, lenda á starfsemi eins og framleiðslu véla, búnaði, byggingariðnaði og hrávöru? Á hinn bóginn eru það einmitt þessir geirar sem hefja sig til flugs á þembuskeiðum hagsveiflunnar, en ekki þau fyrirtæki sem þjóna neytendum. – Svo ásættanleg kenning um hagsveifluna þarf því einnig að gera grein fyrir því hvers vegna þembur og skellir eru til muna tilfinnanlegri í þeim geira sem þjónar framleiðendum en neytendum.

Það vill svo vel til að rétta kenningin um kreppur og hagsveifluna er til, þótt almennt sé litið fram hjá henni í hópi nútíma hagfræðinga. Og hún á sér raunar langa sögu í hagspekilegum bollaleggingum. Þessi kenning upphófst hjá skoska heimspekingnum og hagfræðingnum David Hume, sem uppi var á átjándu öld. Og hinum virta, klassíska hagfræðingi David Ricardo, í Englandi í byrjun nítjándu aldar. Segja má að þeir hafi skilið, að samhliða iðnframleiðslukerfinu hefði annað veigamikið fyrirbrigði orðið til, um miðja átjándu öld. Þetta var bankastarfsemi, ásamt möguleikum sínum til að þenja útlán og peningamagn (fyrst í formi pappírspeninga, eða seðla, og síðar í formi innlánsreikninga, eða ávísanareikninga, sem hægt er að tæma fyrirvaralaust og fá reiðuféð í bankanum). Þessir hagfræðingar sáu að það væri starfsemi þessara viðskiptabanka, sem hefði að geyma lausn gátunnar um hina dularfullu hringrás þenslu og samdráttar, þembu og skella, sem menn höfðu furðað sig á allt frá miðri átjándu öld.

Greining Ricardos á hagsveiflunni var nokkurn veginn á þessa leið: Náttúrulegir peningar, sem koma fram sem slíkir á markaði, eru nýtilegir hlutir, oftast gull og silfur. Ef peningar væru einfaldlega bundnir við þessar vörur, myndi hagkerfið í heild sinni virka eins og tilteknir markaðir: framboð lagaði sig að eftirspurn, jafnt og þétt – og því engin hringrás þembu og skella. En þegar bankalán koma til sögunnar, fylgir þeim veigamikil og óstöðug breyta. Því bankarnir auka útlán, og þar með bankapeninga í umferð, í formi seðla eða ávísana sem í orði kveðnu má leysa út í gulli, en er greinilega ekki hægt í reynd. Ef banki á, til að mynda, 1000 únsur af gulli í hvelfingum sínum, og gefur út skuldabréf fyrir 2500 únsur sem leysa má út samstundis, hefur hann augsýnilega gefið út 1500 únsur sem hann getur með engu móti greitt. En svo fremi sem ekkert samstillt „áhlaup“ er gert að bankanum til að leysa út bréfin, geta þau virkað á markaðnum sem ígildi gulls. Og þar með hefur bankinn getað aukið fjármagn í landinu sem nemur 1500 únsum gulls.

Og hefst þá veislan.

Nú fara bankarnir, glaðir og ánægðir, að auka útlán. En því meira sem þeir lána, því meira græða þeir. Það þýðir að peningamagn eykst í landinu – Englandi, til að mynda. Eftir því sem framboð eykst af seðlum og bankaávísunum í Englandi, aukast tekjur og eyðsla fólks þar í landi. Og hið aukna peningamagn keyrir upp verð á enskum vörum. Af því hlýst verðbólga og þemba í landinu. En uppgangurinn, sem hann þembir sig áhyggjulaus, felur í sér eigið fall. Því eftir því sem peningar og tekjur vaxa, fara Englendingar að kaupa meira utan lands frá. Ennfremur, eftir því sem enskt verðlag hækkar, fara enskar vörur að missa hæfni sína til samkeppni við vörur annarra landa sem ekki hafa þanist, eða þar sem þembugangur er minni. Nú fara Englendingar að kaupa minna heima og meira erlendis, á meðan útlendingar kaupa minna í Englandi og meira heima hjá sér; þá fer að vera halli á utanlandsviðskiptum í Englandi, þannig að enskur útflutningur dregst til muna aftur úr innflutningi. En ef innflutningur er meiri en útflutningur, felur það í sér að peningar hljóta að streyma úr Englandi til annarra landa. Og hvaða peningar skyldu það nú vera? Varla eru það enskir seðlar eða ávísanir, því Frakkar, Þjóðverjar eða Ítalir hafa lítinn eða alls engan hug á að hafa fé sitt fast í enskum bönkum. Því munu útlendingarnir fara með seðla sína og ávísanir í ensku bankana og fá leysta út í gulli. – Svo gull er sú tegund peninga sem mun streyma úr landi, eftir því sem þembingur heldur áfram í Englandi. Þetta þýðir aftur að enskir seðlar og ávísanir munu í sí auknum mæli, hrúgast upp ofan á gullfót sem þynnist í sífellu í enskum bankahvelfingum. Sem nú þemban eykst, mun okkar ímyndaði banki fjölga seðlum/ávísunum sínum, til að mynda, úr 2500 únsum í 4000 únsur, á meðan gullfótur hans rýrnar niður í kannski 800 únsur.

Fyrr en síðar rennur þó af mönnum.

Eftir því sem þessu heldur fram, munu bankarnir um síðir verða uggandi. Því þeim ber jú að greiða skuldbindingar sínar í reiðufé, og reiðufé þeirra streymir burt á sama tíma og skuldbindingar þeirra hrannast upp. Því mun bönkunum á endanum hætta að lítast á blikuna, hætta útlánaþenslu, og til að bjarga sér, innheimta útistandandi lán. Oft er þetta undanhald knúið enn frekar af bankaáhlaupum, þar sem margir viðskiptamenn heimta fé sitt greitt út, enda orðnir uggandi því þeim virðist staða bankanna í landinu vera orðin heldur vafasöm.

Þegar bankarnir fella seglin snýst dæmið við; samdráttur og skellur koma í kjölfar þembu. Bankarnir hnipra sig saman, og þrengir að fyrirtækjum eftir því sem harðar er gengið eftir skuldum. Framboð á bankapeningum minnkar til muna, svo verðlag almennt lækkar í Englandi. Eftir því sem peningamagn og tekjur lækka, og verðlag í landinu hríðfellur, – verða enskar vörur meira spennandi miðað við erlendar, svo greiðslujafnvægið snýst við og útflutningur fer fram úr innflutningi. Eftir því sem gull streymir til landsins, og bankapeningar safnast saman ofan á gullfót sem er að styrkjast, verður staða bankanna til muna heilnæmari.

Þetta er þá það sem átt er við með kreppuskeiðinu í hagsveiflunni. Þess ber að gæta að það er tímabil sem sprettur af – er óhjákvæmilega orsakað af – þembingnum sem á undan fór. Það er þenslan á undan sem veldur því að kreppuskeiðið verður óumflýjanlegt. Við sjáum, til að mynda, að kreppan er það ferli þar sem markaðshagkerfið aðlagast – hristir af sér óhóf og afbökun undangenginnar þembu, og kemur á fullfrískum efnahag á nýjan leik. Kreppan er ónotalegt, en nauðsynlegt viðbragð við óhófi og afbökun þembunnar.

Má þá ekki rekja þessar raunir til hins frjálsa markaðar eða að minnsta kosti til bankanna sem á honum starfa?

Hví er það þá að næsta sveifla fer af stað? Hví eru hagsveiflur síendurtekið og viðvarandi fyrirbrigði? – Þegar bankarnir hafa náð sér sæmilega, og standa traustum fótum, hneigjast þeir sjálfkrafa til útlánaþenslu, svo næsta þemba fer að byrja og felur í sér næsta óumflýjanlega skell.

En ef nú hagsveifluna stafar frá bönkunum, – ja, eru bankarnir ekki líka hluti af frjálsa markaðnum? Og getum við ekki samt sagt að frjálsi markaðurinn sé skúrkurinn, þótt það sé ekki nema bankageirinn af honum? – Svarið er nei. Í einn stað vegna þess að bankarnir gætu aldrei ráðist í útlánaþenslu samstíga, ef ekki væri fyrir íhlutun og stuðning yfirvalda. Því ef bankarnir væru fyllilega í samkeppnisumhverfi, myndi útlánaþensla eins þeirra valda því að hann safnaði skuldum í hinum bönkunum, keppinautum sínum. Og þeir myndu brátt innheimta reiðufé af honum. Í stuttu máli munu keppinautar bankans leysa út skuldabréf fyrir gull, eða reiðufé, á sama hátt og útlendingar myndu gera, – nema hvað ferlið væri sýnu hraðvirkara svo það jafnaði út þenslu jafnóðum, áður hún þendi sig svo nokkru næmi. Bankar geta ekki þanið sig samstíga með góðu móti nema seðlabanki sé til staðar, – sem eiginlega hlýtur að lúta stjórn yfirvalda, hafa einokun á viðskipti við yfirvöld, og lykilstöðu gagnvart öllu bankakerfinu sem er tilskipuð af yfirvöldum. Það var ekki fyrr en seðlabankar fóru að tíðkast, að bankar fóru að geta þanið útlán í langan tíma og hin kunnuglega hagsveifla hóf göngu sína í heimi nútímans.

Seðlabankinn nær tökum á bankakerfinu með stjórnvaldsaðgerðum, á borð við: – að gera eigin skuldbindingar (seðla, skuldabréf) að lögeyri fyrir allar skuldir og skattgreiðslur, – veita seðlabankanum einkarétt á að gefa út seðla, andstætt inneignarseðlum (eins og gulls ígildi) (í England var það Englandsbanki, seðlabanki á vegum stjórnvalda, sem hafði lögmætan einkarétt á seðlum á Lundúnasvæðinu); – eða einfaldlega með því að neyða banka til að nota seðlabankann sem viðskiptavin til að geyma reiðufjárbirgðir sínar (eins og það sem nefnist Seðlabanki Bandaríkjanna (Federal Reserve System) í Bandaríkjunum). Ekki svo að skilja að bankarnir kvarti neitt undan þessum afskiptum. Því það er einmitt þetta seðlabankafyrirkomulag sem gerir útlánaþenslu til langs tíma mögulega. Enda er það aukið magn seðlabankaseðla sem færir öllu bankakerfinu auknar birgðir af peningum og gerir öllum viðskiptabönkunum kleift að ráðast samstíga í útlánaþenslu. Seðlabanka fyrirkomulagið virkar eins og notalegur einokunar klúbbur, til að stækka efnahag bankanna. Svo nú geta bankarnir aukið útlán á stæðilegum reiðufjárfæti, í formi seðlabankaseðla, auk gullfótarins.

Svo nú sjáum við loks að hagsveiflan sprettur ekki af neinum leyndardómsfullum misbrestum frjálsa markaðarins. Nei, þvert á móti: hún sprettur einmitt af skipulegum afskiptum stjórnvalda af gangi markaðarins. Íhlutun yfirvalda leiðir til aukinna bankalána og þenslu, – og, þegar henni lýkur – fylgir leiðrétting kreppunnar í kjölfarið.

Kreppan er óhjákvæmileg afleiðing útlánaþenslunnar eða bólunnar Af þeim systrum bólu og kreppu er kreppan heilbrigði hlutinn. Kreppan er aðlögun að raunveruleikanum, leiðrétting á útlánaþenslunni sem hinn notalegi einokunarklúbbur stendur að. Bóluna sem er ávallt undanfari kreppunnar verður að skrifa á reikning opinberra afskipta.