Föstudagur 21. janúar 2011

21. tbl. 15. árg.

E

Jóhanna hyggur á hefndir gegn Bretum. Vill etja þeim út í fæðingarorlofspyttinn.

in valdamesta kona heims, Jóhanna Sigurðardóttir, þáði í gær heimboð Davids Camerons, forsætisráðherra Bretlands. Cameron stendur fyrir einhvers konar fundi þjóðarleiðtoga á norðurslóðum og Jóhanna ákvað að mæta til Lundúna. Og ef marka má fréttir þá hefur hún þegar komið mikilvægu máli á framfæri við forsætisráðherra landsins sem setti hryðjuverkalög á Ísland og gerir nú stórfelldar löglausar kröfur á hendur landinu sem það sjálft beitti órétti: Jú herra Cameron, kona yðar eignaðist barn í fyrra. Ef Bretar hefðu hið frábæra fæðingarorlofskerfi og Íslendingar, þá gætuð þér nú verið á leið í frí.

Þetta var það sem haft hefur verið eftir Jóhönnu í Lundúnum. En þó að við fyrstu sýn hljómi með algerum ólíkindum að forsætisráðherra Íslands þiggi heimboð forsætisráðherra Bretlands, eins og ekkert hafi gerst, og hafi fyrst og fremst þetta fram að færa, þá er eflaust dýpri hugsun að baki orðum Jóhönnu: Bretar hafa beitt Íslendinga miklum órétti. Hvað yrði betri hefnd en að plata þá til að taka upp okkar fráleita og óhugnanlega dýra fæðingarorlofskerfi, sem hefur kostað íslenska skattgreiðendur milljarðatugi og dregið þar að auki stórlega úr framtaki í landinu?

Á rið 2009 ákváðu Steingrímur J. Sigfússon og ríkisstjórnin að veita milljörðum króna úr ríkissjóði til að bjarga tryggingarfélaginu Sjóvá frá þroti. Í vikunni seldi Már Guðmundsson drjúgan hluta af eign ríkisins í tryggingafélaginu til ókunnra aðila og kom þá í ljós að stór hluti af framlagi ríkisins er tapað fé. Af því tilefni var talað við Steingrím. Hann taldi þetta alls ekki sýna að rangt hefði verið að bjarga tryggingafélaginu. Það mætti ekki gerast að „eitt af þremur stóru tryggingafélögunum færi í þrot“.

Þessi yfirlýsing fjármálaráðherra er aldeilis hvatning fyrir núverandi stjórnendur tryggingafélaganna um að standa sig í starfi. Félögin mega ekki fara í þrot. Frekar kemur ríkið til bjargar.

Þetta vekur líka spurninguna um það hvernig Steingrímur hefði staðið að málum ef hann hefði verið við völd haustið 2008, þegar mjög var sótt að seðlabanka og ríkisstjórn fyrir að hafa ekki lánað Glitni stóran hluta af gjaldeyrisvaraforða landsins, til að bankinn ætti fyrir næsta víxli.