Laugardagur 22. janúar 2011

22. tbl. 15. árg.

R eykjavíkurborg mun framvegis láta Orkuveitu Reykjavíkur um að innheimta vatnsgjald og fráveitugjald af húseigendum. Forsendum fyrir vatnsgjaldi (kalt vatn) er ekki breytt en framvegis verður frárennslisgjald miðað við fermetra húsnæðis í stað fasteignamats. Gott og vel, það er Orkuveitan sem veitir þessa þjónustu. En hvers vegna innheimtir Orkuveitan þessi gjöld þá ekki með gjöldum fyrir aðra þjónustu sem hún veitir, það er heitt vatn og rafmagn? Á álagningarseðlinum fyrir vatns- og fráveitugjaldið stendur að tilkynningar- og greiðslugjald bætist ofan á mánaðarlegar greiðslur.

Orkuveitan sendi húseigendum bréf og bækling með upplýsingum um þessa nýjung. Hvorki í bréfinu né bæklingnum var að finna upplýsingar um hve mikið fráveitugjaldið breytist við þessar breytingar. Þar voru ekki einu sinni gefnar þær forsendur sem áður lágu til grundvallar svo fólk gæti metið hvað það hefði þurft að greiða að óbreyttu kerfi.

Ætli hefði staðið á þessum upplýsingum ef fráveitugjaldið væri almennt að lækka?

E in af flækjunum sem ríkisstjórnin hefur búið til í skattkerfinu er endurgreiðsla á tekjuskatti einstaklinga fyrir útgjöld til ákveðinna mála. Maður sem fær múrara til að steypa stétt í garðinum hjá sér fær endurgreiddan virðisaukaskatt og lækkaðan tekjuskatt vegna vinnu múrarans við að hræra steypuna í stéttina. Nágranni mannsins kaupir hins vegar hellur en fær engan virðisaukaskatt og heldur ekki tekjuskatt af vinnu við að steypa þær endurgreiddan. Reglur þessar gilda bara fyrir árin 2010 og 2011. Þeir sem stóðu í vissum framkvæmdum 2009 eða eru með eitthvað á prjónunum á næsta ári geta átt sig. Desember 2009 nei, janúar 2010 já. Desember 2011 já, Janúar 2012 nei.