Á dögunum voru sagðar fréttir af því að einhverjir liðsmenn Besta flokksins hefðu uppi ráðagerðir um borgarbanka sem myndi geta boðið lánaþyrstum, ekki síst borgarsjóði sjálfum, mun hagstæðari kjör en aðrir bankar gera. Þetta gæti borgarbankinn því hann myndi ekki taka vexti sjálfur umfram þá stýrivexti sem hann þyrfti að greiða Seðlabanka Íslands af lánsfé þaðan. Ekkert hefur þó spurst til þessarar hugmyndar frá því í sumar. Mannréttindaráð borgarinnar kann að hafa komist að þeirri niðurstöður að vaxtaleysið hefði trúarlega skírskotun og væri móðgun við einhverja ofsavantrúaða.
Mannréttindaráð þetta hefur ætlar nú að stöðva ýmsa trúarbragðatengda starfsemi í leik- og grunnskólum borgarinnar. Þó mun grænu trúarjátningunum, ég skal flokka og skila og hylla grænfánann daglega, ekki verða úthýst. Sömuleiðis hefur borgarstjóri hvatt kvenkyns kennara í skólum borgarinnar til að sýna skólabörnum með þeim afgerandi hætti að leggja niður störf og ganga á dyr á morgun kl. 14:25 að konur séu almennt hýrudregnar af vinnuveitendum sínum.
Í raun er vandfundið það skólastarf sem ekki gæti móðgað einhvern. Það gildir því í þessum efnum sem öðrum að miðstýring og skipanir að ofan minnka líkurnar á því að hægt sé að gera öllum til geðs. Reykjavíkurborg rekur flesta og fjármagnar að mestu leyti skóla í borginni. Þess vegna er mögulegt að gera jólasálma í skólum að pólitísku apaspili.
Það eru einungis örfáir einkareknir skólar í borginni og forsvarsmenn þeirra sýndu í síðustu viku sjálfstæði og æðruleysi gagnvart afskiptasemi mannréttindaráðs borgarinnar. Í Fréttablaðinu 21. október var rætt við þrjá þeirra.
„Ég hef alltaf haft blendnar tilfinningar gagnvart því að bæjaryfirvöld eða ríki hlutist um of í starfsemi skóla. Ég trúi því að kennarar, foreldrar og skólastjórnendur skapi þá menningu sem allir eru sáttir við,“ segir Margrét Pála .
Sölvi Sveinsson, skólastjóri Landakotsskóla, segir skólann, sem upphaflega var kaþólskur og rekinn af nunnum, eiga margvísleg tengsl við kirkjuna og þeim verði ekki breytt. Skólahald sé sett og því slitið inni í kirkju og það standi í stofnskránni að foreldrar nemenda skuli bera virðingu fyrir kristilegum gildum. „Við höldum í heiðri margvíslegar hefðir á aðventunni og því verður ekki breytt,” segir Sölvi. „Satt að segja finnst mér þetta taugaveiklunarleg samþykkt hjá mannréttindaráði.“ Sigríður Anna Guðjónsdóttir, skólastjóri Ísaksskóla, segir sálmasöng og kirkjuferðir ætíð hafa verið hluta af skólastarfi Ísaksskóla. „Það eru sungnir sálmar í hverri viku og það er hluti af skólastarfinu, sem og kirkjuferðir og kirkjukaffi í kringum jólin,” segir hún. „Svo ég er hugsi. En þessar hugmyndir eru ekki orðnar að veruleika.“ |
Já eru ekki sæmilegar líkur á því eins og Margrét Pála Ólafsdóttir formaður sjálfstætt starfandi skóla að kennarar og skólastjórnendur geti almennt komið til móts við óskir nemenda og foreldra í þessum efnum? Fái þeir svigrúm og frið til þess?
Besta leiðin til að auka þetta svigrúm er að fjölga sjálfstætt starfandi leikskólum en fækka opinberum ráðum og nefndum sem eiga svo lítið erindi að þær funda og álykta um litlu jólin.