Í
Auglýsingin sem VG kærði Vefþjóðviljann fyrir vegna birtingar myndar af leiðtoganum. |
gær bárust af því fréttir sunnan frá Venesúela að Hugo Chávez forseti landsins hefði bannað notkun mynda af sér nema með sérstöku samþykki sínu. Eins og menn vita geta myndir sýnt menn í óheppilegu ljósi. Banninu er ætlað að styrkja ímynd forsetans sem hins eina sanna leiðtoga, svipað og fánalög upphefja fánann sem sameiningartákn.
Þetta mál sýnir að útrás með íslenskt hugvit er hvergi nærri lokið.
Í apríl á síðasta ári birti Vefþjóðviljinn litla auglýsingu í tveimur dagblöðum. Þar var vakin athygli á því að enginn þingmaður hefði hagnast jafn vel á „eftirlaunafrumvarpinu“ og Steingrímur J. Sigfússon. Á árunum 2003 og 2009 varð Steingrímur 15 milljónum króna bættari vegna „eftirlaunafrumvarpsins“. Eins og Vefþjóðviljinn hefur áður sagt frá urðu viðbrögðin við þessum auglýsingum áhugaverð. Þegar þær birtust hafði Steingrímur verið fjármálaráðherra í nær þrjá mánuði og var farinn að finna til sín í embætti.
Aðeins nokkrum klukkustundum eftir að blöðin með auglýsingunni höfðu verið borin í hús, barst Vefþjóðviljanum bréf, þar sem honum var tilkynnt að hann hefði verið kærður fyrir tiltækið. Ekki þó vegna þess að stafkrókur væri rangur í auglýsingunni; nei Vefþjóðviljinn var þess í stað sakaður um þann stórglæp að hafa birt litla andlitsmynd af Steingrími J. Sigfússyni í litlu auglýsingunni. Í tilkynningu til blaðsins sagði að kæran hefði borist „frá stjórnmálaflokknum Vinstri Grænum á hendur Vefþjóðviljanum“.
Tilgangur kærunnar var augljóslega að reyna að hindra frekari birtingu auglýsingarinnar, svo þessar upplýsingar kæmust ekki til vitundar fleira fólks. Lítil vefsíða leyfði sér að birta upplýsingar um gríðarlegan persónulegan ábata eins stjórnmálamanns af lagabreytingu, sem flokkur hans hefur í hálfan áratug úthrópað sem sérstakan „ósóma“. Sami stjórnmálaflokkur brást strax við með kærumálum, án þess þó að gera nokkra einustu efnislegu athugasemd við efni auglýsingarinnar. Augljóslega var reynt að hræða vefsíðuna frá frekari birtingu hennar. Því er meira að segja haldið fram, og það í fullri alvöru, að það sé hreinlega óheimilt að birta hefðbundna andlitsmynd af formanni stjórnmálaflokks og ráðherra í lítilli auglýsingu þar sem vakin er athygli á lítilli staðreynd.
Á sömu stund og kæran vegna myndbirtingarinnar var send með hraði frá flokksskrifstofum VG voru ungliðar flokksins að dreifa um bæinn barmmerkjum með mynd af Bjarna Benediktssyni formanni Sjálfstæðisflokksins þar sem honum var líkt við „olíu á eldinn“.