Þ
Til að fá þingmenn VG til að styðja aðildarumsókn margítrekaði Steingrímur að hvenær sem er mætti hætta við. |
eir sem vilja koma Íslandi inn í Evrópusambandið reyna á hverjum degi að koma aðlögun Íslands að ESB áfram. Martröð þeirra er að álögin falli af Vinstrigrænum og þeir berji í borðið og stöðvi aðlögunina, því án vinstrigrænna verður engin aðlögun. Sjálfstæðisflokkurinn hefur á nýlegum landsfundi með afgerandi hætti krafist þess að Evrópusambandsumsóknin verði afturkölluð, svo ekki fengi Samfylkingin stuðning þaðan.
En af því að fleiri og fleiri sjá nú, að stjórnarslitahótanir Samfylkingarinnar eru innantómar, þá er bætt við ýmsum öðrum frösum, til að reyna að hræða vinstrigræna frá því að gæta stefnu sinnar og loforða. Ein kenningin er sú að of seint sé að hætta við, tekin hafi verið ákvörðun og menn verði að virða hana. En þar gleyma menn mikilvægum atriðum.
Vinstrigrænir áskildu sér alltaf rétt til að stöðva ferlið, á hvaða stigi sem er. Samfylkingin getur ekki mótmælt því.
Í ræðu sinni við síðari umræðu um þingsályktunartillögu um aðildarumsókn að Evrópusambandinu sagði Steingrímur J. Sigfússon meðal annars:
Við áskiljum okkur ekki bara rétt til þess að leggjast gegn samningsniðurstöðu, verði hún sú sem við teljum mörg hver líklegt, þ.e. að hún breyti litlu um það mat sem uppi hefur verið um hvað það þýði fyrir Ísland að ganga í Evrópusambandið. Við áskiljum okkur líka rétt til þess á hverju stigi málsins sem er að leggja það til að samningaviðræðum verði hætt og það á Alþingi líka að gera. |
Og þegar atkvæði voru greidd, kvaddi Steingrímur J. Sigfússon sér hljóðs um atkvæðagreiðsluna:
Frú forseti. Þegar tillaga þessi um aðildarumsókn að Evrópusambandinu kemur til lokaafgreiðslu vil ég árétta þá grundvallarstefnu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs að það þjóni ekki hagsmunum Íslands að gerast aðili. Við greiðum atkvæði um það á eftir hvort rétt sé eftir sem áður að láta reyna á í viðræðum hvers konar samningi sé hægt að ná til þess að þjóðin geti að því loknu hafnað honum eða samþykkt hann komi til niðurstöðu. Þingmenn VG eru bundnir af engu nema sannfæringu sinni varðandi það hvort sú leið skuli farin. Hvor tveggja afstaðan, að vera með því eða á móti, er vel samrýmanleg stefnu flokksins. Öll eigum við það sameiginlegt, þingmenn VG, að áskilja okkur rétt til málflutnings og baráttu utan þings sem innan í samræmi við grundvallaráherslur flokksins og okkar sannfæringu. Það tekur einnig til þess að áskilja okkur rétt til þess að slíta samningaviðræðum séu þær ekki að skila fullnægjandi árangri á hvaða stigi málsins sem er sem og auðvitað að hafna óviðunandi samningsniðurstöðu. |
Þetta er afar skýrt. Vinstrigrænir áskildu sér rétt til að stöðva ferlið hvenær sem væri. Þetta var meðal þess sem forysta vinstrigrænna notaði til að knýja þingmenn til að samþykkja þingsályktunartillögu Össurar Skarphéðinssonar. Varla ætlar sama forysta að berja almenna flokksmenn sína til hlýðni, nú með þeim rökum að þeir geti ekki gert það sem Steingrímur J. Sigfússon áskildi þeim ítrekað rétt til að gera.