Vefþjóðviljinn 330. tbl. 19. árg.
Í gær kynntu þrír ráðherrar Framsóknaflokksins svonefnda „Sóknaráætlun í loftslagsmálum“ á blaðamannafundi. Menn vilja ekki fara ónestaðir á loftslagsráðstefnuna í París.
Annað af tveimur tölusettum markmiðum í sóknaráætluninni er að losun gróðurhúsalofttegunda frá sjávarútvegi minnki um 40% til ársins 2030.
Það er ekkert smáræði, hafa sjálfsagt ýmsir hugsað með sér. Mjög metnaðarfullt. Náttúrverndarsamtök Íslands fögnuðu þessu 40% markmiði fyrir sjávarútveginn sem „frábæru“ í Spegli Ríkisútvarpsins í gærkvöldi.
Þegar betur er að gáð er markmiðið hins vegar ekki að draga úr losun um 40% frá sjávarútvegi frá því í dag til árins 2030 heldur verður miðað við árið 1990 sem upphafsár.
Árið 1990 er stundum sagt að kvótakerfið hafi loks verið fullskapað á Íslandi, kvótinn hafi orðið sæmilega traust eign sem gat gengið kaupum og sölum. Vafalítið á kvótakerfið sinn þátt í því að dregið hefur úr olíunotkun í sjávarútvegi því það gefur miklu betri færi til skipulagningar veiða en önnur og fyrri kerfi. Skipum hefur því fækkað og dregið úr orkuþörf.
Frá 1990 til 2012 minnkaði losun gróðurhúsalofttegunda frá sjávarútvegi nefnilega um 38%.
Þetta er í raun frábært dæmi um hvernig ná má árangri í orku- og umhverfismálum án skatta, boða og banna. Orkusparnaður er innifalinn í góðum kerfum á borð við íslenska fiskveiðistjórnunarkerfið.
Það er heldur ekki ónýtt fyrir ráðherrana að hafa nánast náð öðru tölusetta markmiðinu sínu um leið og sóknaráætlun þeirra var kynnt.