Mánudagur 8. júní 2009

159. tbl. 13. árg.

K osið var til sameiginlegs þings allra Evrópusambandsríkjanna síðustu daga og voru úrslit birt í gærkvöldi. Meginniðurstöðurnar eru skýrar. Jafnaðarmenn og slíkir töpuðu verulegu fylgi. Staða hægrimanna og bandamanna þeirra styrktist verulega. Ekki virðist skipta máli um þessa meginniðurstöðu hverjir sitja við völd á hverjum stað, en Gordon Brown og kratar hans í Bretlandi tapa verulegu fylgi en fylgismenn Sarkozys Frakklandsforseta unnu verulega á.

Efnahagskreppan hefur geysað um Evrópusambandslöndin undanfarið og þessar niðurstöður eru meðal þess lærdóms sem evrópskir kjósendur draga af henni, þó vitaskuld spili staðbundin deilumál inn í á hverjum stað. Deilurnar um fríðindi breskra þingmanna eru skýrt dæmi um slíkt, þó ekki megi gleyma því að staða Browns var orðin mjög erfið löngu áður en það mál kom upp.

En, með þessum augljósa fyrirvara, þá blasir við að kjósendur í Evrópusambandslöndunum, að minnsta kosti stærsti hluti þeirra sem mæta á kjörstað, dregur aðrar ályktanir en íslenskir kjósendur gerðu í alþingiskosningunum í vor. Hvernig ætli standi á því?

Nú verður auðvitað að gera sama fyrirvara og áður. Efnahagskreppan er auðvitað alls ekki það eina sem kjósendur hafa í huga þegar þeir greiða atkvæði. Tilfallandi staðbundin mál, eins og stórskotahríð fréttastofanna fyrir kosningar vegna fjárstyrkja til eins stjórnmálaflokksins, hafa auðvitað áhrif, fyrir nú utan öll önnur smærri og stærri mál.

En ein ástæða þess hvernig íslensk stjórnmál hafa þróast undanfarin misseri liggur í ótrúlegri slagsíðu íslenskra fjölmiðla. Ríkisútvarpið hefur hefur auðvitað verið notað árum saman sem áróðursvél vinstrimennskunnar. Dag eftir dag mallar þar sama vélin; Vefþjóðviljinn hefur afar lengi haldið því fram að svonefndri fréttastofu Ríkisútvarpsins sé í raun beitt sem áróðursstofnun, og milli fréttatímanna gengur á með víðsjám, speglinum, samfélaginu í nærmynd, krossgötum, vikulokum og linnulausum vinstripistlum um ólíklegustu mál.

Þetta er hins vegar ekki endilega svo sérstakt fyrir Ísland. Sérstaða Íslands undanfarin misseri felst ekki hvað síst í því að Ísland er eina vestræna ríkið þar sem ekki er gefið út víðlesið borgaralegt dagblað. Morgunblaðið sem lengi var mótvægi við vinstriáróður landsins hefur fyrir löngu látið af þeirri varðstöðu og predikar pólitískan rétttrúnað, femínisma og Evrópusamband af miklum móð. Þar á ofan bætist að því er virðist hreinn fjandskapur við tiltekna einstaka forystumenn eða fyrrverandi forystumenn af hægri væng stjórnmálanna, og við þessar aðstæður getur áróðurinn af vinstrikantinum vaðið uppi nær óáreittur.

En vitaskuld mega eigendur Morgunblaðsins gefa út svona blað fyrst þeir vilja.