Fimmtudagur 5. júní 2008

157. tbl. 12. árg.

J arðskjálftafræðingar deila um hvort hægt sé að spá fyrir um jarðskjálfta. Í síðustu viku skók stór jarðskjálfti Suðurland. Þrátt fyrir þétt net jarðskjálftamæla og mikið eftirlit reið skjálftinn yfir án viðvörunar. Sumir hefðu ef til vill litið á það sem vísbendingu um að erfitt væri að spá fyrir um jarðskjálfta.

Ragnar Stefánsson hefur unnið við jarðskjálftarannsóknir í marga áratugi. Hann var annarrar skoðunar. Eina sem upp á vantar til að hægt sé að gera jarðskjálftaspár að hans mati er að hið opinbera leggi honum og félögum hans til… já einmitt, meira fé. Það er því miður alltof algengt að þrýstihópar reyni að nota válega atburði til að afla áhugamálum sínum fjár, oftast á kostnað skattgreiðenda. Og þeir reyna þetta ekki að ástæðulausu. Þetta virkar oftast á taugaveiklaða stjórnmálamenn.

Þegar óstöðugir stjórnmálamenn og jarðskjálftar eru nefndir verður ekki litið framhjá því að Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra hefur nefnt að til greina komið ríkið bæti fólki á Suðurlandi tjón sem það varð fyrir, hafi það ekki tryggt sig. Hugmyndin er ekki einungis ósanngjörn, heldur er hún sérlega óábyrg. Hvers vegna eiga þeir sem tryggja sig gegn áföllum að greiða tjón þeirra sem ekki tryggja? Hvað svo með þá sem verða fyrir öðrum áföllum án þess að vera tryggðir? Verður ekki að bæta tjón þeirra líka til að gæta jafnræðis? Þar með er algerlega óþarft að tryggja sig.

S umarháskóli RSE, verður starfræktur helgina 13. – 15. júní næstkomandi við Háskólann á Bifröst undir yfirskriftinni, Frelsi og alþjóðavæðing. Þetta er þriðja árið sem skólinn er starfræktur. Sérstakur gestur í sumarháskólanum í ár verður Dr. Tom Palmer, frá Cato stofnuninni í Bandaríkjunum. Meðal annars verður vikið að mannréttindamálum í heiminum og áhrif alþjóðavæðingar á einstaklingsfrelsi og efnahagslegt frelsi. Velt verður upp spurningum um skattalega samkeppni ríkja, um baráttuna við ýmis umhverfisvandamál og áhrif alþjóðavæðingar fjármálamarkaða á stöðugleika lítilla ríkja með eigin gjaldmiðla.

Í Sumarháskólanum er blandað saman fyrirlestrum þekktra fræðimanna og sérfræðinga, spurningatímum og starfi í umræðuhópum. Með þessu er hvort tveggja reynt að efla skilning og virkja nemendur til þátttöku.

Þátttökugjald er kr. 5.900. Innifalið í þátttökugjaldi eru auk fyrirlestra, gisting á staðnum sem RSE útvegar og málsverðir alla helgina meðan skólinn stendur. Skólinn verður settur föstudaginn 13. júní kl. 18 við Háskólann á Bifröst. Sumarháskólinn er fyrst og fremst ætlaður ungu fólki sem annaðhvort hyggur á háskólanám, stundar háskólanám eða hefur nýlokið við það.

Nánari upplýsingar má finna á vef RSE.