Miðvikudagur 11. september 2013

Vefþjóðviljinn 254. tbl. 17. árg.

Hér segir eitt og annað um valdaskiptin í Chile 1973 sem sjaldan er nefnt þegar vestrænir vinstrimenn segja frá.
Hér segir eitt og annað um valdaskiptin í Chile 1973 sem sjaldan er nefnt þegar vestrænir vinstrimenn segja frá.

Í dag eru fjörutíu ár liðin frá því herinn í Chile setti Salvador Allende af sem forseta Chile og verður það rifjað víða upp í dag. Þar verður skiljanlega fjallað um ódæðisverk manna Pinochets hershöfðingja og Bandaríkjastjórn mun ekki gleymast. Um Salvador Allende og stjórn hans verður víða látið nægja að segja að hann hafi verið lýðræðislega kjörinn.
Það er engin ástæða til að gera lítið úr því að herinn stjórnaði með hörku og beitti andstæðingana oft grimmdarlegu ofbeldi. Það má ekki gleymast. En það er fleira sem ekki ætti að gleymast, en margir á Vesturlöndum minnast aldrei á, þegar þeir ræða um gamla atburði í Chile. Þeir nefna til dæmis sjaldnast að þegar herinn í Chile setti Allende af, þá gerði hann það í framhaldi af samþykkt þingsins í Chile. Þeir sem sjaldan gleyma að nefna bandarísku leyniþjónustuna í þessu sambandi, hafa fæstir áhuga á að segja fólki frá slíku.

Fyrir nokkru kom út mjög fróðleg bók, Kommúnisminn, eftir Richard Pipes, fyrrverandi sagnfræðiprófessor við Harvard-háskóla í Bandaríkjunum, og segir þar eitt og annað um valdaskiptin í Chile, sem sjaldan er nefnt þegar vestrænir vinstrimenn segja frá atburðunum í Chile 1973.

Í forsetakosningunum árið 1970 urðu þrír frambjóðendur nær hnífjafnir. Salvador Allende, studdur af sósíalistum og kommúnistum, fékk 36,3 % atkvæða en frambjóðandi hægrimanna hlaut 34,9 %. Pipes segir:

Þar sem engum frambjóðanda tókst að tryggja sér hreinan meirihluta var kosningunni vísað til þingsins. Á næstu tveimur mánuðum komst Allende að samkomulagi við kristilega demókrata sem samþykktu að styðja framboð hans ef hann gengi að fáeinum skilyrðum sem skuldbundu hann til að halda stjórnarskrá Chile í heiðri, svo sem að virða lög og fjölræði í stjórnmálum. Skilyrðunum var lýst í lögum sem þjóðþingið samþykkti og höfðu yfirskriftina Lög um stjórnarskrártryggingar og þau gerðu Allende kleift að setjast í forsetastól.

Seta Allendes á valdastóli var þannig háð kvöðum. Hann reyndi þó eftir fremsta megni að ná fram róttækum markmiðum sínum. Námur, bankar og flestar framleiðslugreinar voru þjóðnýttar, og það með tilskipunum, fram hjá þinginu. Launahækkanir voru fjármagnaðar með seðlaprentun og verðbólga komst í 300% á ársgrundvelli. Ríkisstjórn Allendes lét sér ekki nægja að þjóðnýta mikilvægar atvinnugreinar, hún lét viðgangast og hvatti til þess að land yrði tekið af eigendum þess. Af því leiddi vitanlega að matvælaframleiðsla minnkaði mjög og þegar stjórn Allendes féll voru aðeins til í landinu hveitibirgðir til þriggja daga neyslu. Mótmæli og verkföll jukust stöðugt og lömuðu að lokum allar samgöngur og mikinn hluta efnahagslífsins.

Í ágústmánuði árið 1973 samþykkti fulltrúadeild þingsins í Chile, með 81 atkvæði gegn 45, að Allende hefði „brotið stjórnarskrána með því að ræna völdum þingsins, skeyta engu um landslög og takmarka málfrelsi“, svo notuð sé endursögn Pipes. Fulltrúadeild þingsins fór svo fram á það við chileska herinn að hann endurreisti lög landsins og í samræmi við skipun þingsins þvingaði herinn Allende frá völdum.

Finnst mönnum það ekki skipta einhverju máli, þegar sagt er frá þessum atburðum, að láta það fylgja sögunni að það var þingið í landinu sem fól hernum að endurreisa lög landsins?

Hin fróðlega bók, Kommúnisminn, fæst í Bóksölu Andríkis.