Sautjándi júní er ekki spennandi dagur. Því miður. Það væri hægt að hafa hann fínan. Það er komið sumar, við getum glaðst yfir því að vera sjálfstæð og stöndug þjóð. Sólin er hæst á lofti. En skemmtanahald dagsins er frekar leiðinlegt. Það er skipulagt af kontóristum hjá borginni, ekkert er sjálfsprottið, upprunalegt, komið frá fólkinu sjálfu. Það vafrar bara um. |
– Egill Helgason sjónvarpsmaður segir frá væntingum sínum til hátíðarhalda á 17. júní á vef sínum. |
O rðið „sjálfsprottið“ er svo vannýtt en um leið svo skemmtilegt að einn góðan veðurdag gæti það orðið grundvöllur árangursríkrar gagnsóknar frelsisunnenda; gegn femínismanum, umhverfishyggjunni, lýðheilsufræðunum og fagmennskunni sem eru að dauðhreinsa þjóðfélagið af löstum, kynlegum kvistum og furðulegheitum. Þegar menn fá loks nóg af því að taka út hóprefsingar fyrir það að sumir drekka of mikið, aðrir éta of mikið, hreyfa sig of lítið, flokka ekki sorpið sitt, aka kolvitlausir um á einkabíl eða ræða ekki við passlega margar konur í sjónvarpsþáttum sínum þá gæti hugmyndin um sjálfsprottnar lausnir í stað miðstýringar hinna faglegu teyma allt í einu orðið mjög heillandi.
Jú, frjálshyggjumenn hafa í bili unnið umræðuna um atvinnufrelsi og einkaframtak. En um leið er forsjárhyggjan í stórsókn á nýjum sviðum. Jafnréttisstofur, umhverfisstofur, lýðheilsustofnanir og alls kyns eftirlit og átaksverkefni á vegum opinberra og hálfopinberra aðila stækka dag frá degi. Jafnvel stjórnmálaflokkarnir hafa nýlega verið hnepptir í fjötra og miðstýring innan þeirra aukin með því að setja þá á fjárlög og banna um leið aðrar aðferðir til að fjármagna stjórnmálastarf.
Enginn hefur gert betri grein fyrir kostum hins sjálfsprottna skipulags umfram hið miðstýrða en Friedrich August von Hayek. Það er vafalítið þess vegna sem Atli Harðarson heimspekingur vitnar í eitt rita Hayeks, Law, Legislation and Liberty, í bók sinni Af jarðlegum skilningi, sem Bóksala Andríkis hefur nú fengið í sölu. Tilvitnunin er svo:
Að til séu kerfi þar sem við getum hvorki lesið neina merkingu úr einstökum hlutum, greint neitt skipulag né gert okkur grein fyrir ástæðum þess sem gerist, að slík kerfi séu traustari grundvöllur undir árangursríka sókn að markmiðum okkar heldur en stofnanir sem hafa verið skipulagðar vísvitandi, að breytingar sem enginn veit hvers vegna verða geti verið okkur í hag (því framvindan nemi staðreyndir sem enginn hefur yfirsýn yfir) – allt þess er svo algerlega andstætt þeirri rökhyggju sem hefur verið ríkjandi í evrópskri hugsun síðan á sautjándu öld að það öðlast vart viðurkenningu fyrr en menn hallast á sveif með gangrýninni gerð og skynsemishyggju og þróunarhyggju og gera sér ekki aðeins ljósan mátt skynseminnar, heldur líka takmörk hennar og skilja að hún hefur þróast með samfélaginu. |
Í bók sinn fjallar Atli meðal annars um þetta sjálfsprottna skipulag, sem er áhugavert fyrir alla frelsisunnendur, því það er svo gott svar við miðstýringunni að ofan. Hann tengir saman siðfræði Davids Hume og Adams Smith, þróunarkenningu Darwins, leikjafræði Oskars Morgenstern og Jánosar von Neumann og hugmyndir Alans Turing um altæka vél. Bókin er eins konar inngangur að heimspekilegri veraldarhyggju; hvernig megi skilja mannlífið jarðlegum skilningi.
„Frelsið er fullkomnun samfélagsins“ sagði Hume. Hann skildi það á undan flestum öðrum að einstaklingsfrelsi og þau formlegu réttindi, sem frjálshyggjumenn leggja mesta áherslu á, eru afsprengi sögulegrar þróunar. Þau eru fágun á reynsludyggðum og réttlætisreglum sem hafa mótast smám saman og menn læra ekki að meta og virða nema þeir hafi samúð með ótilteknum einstaklingum sem þeir þekkja ekki. Siðferði borgaralegs samfélags kemur ekki í staðinn fyrir siðferði ættbálksins – það er viðbót. Ef menn venjast ekki á að láta sér annt um annað fólk þá temja þeir sér heldur ekki þá réttlætiskennd sem er grundvöllur stærra samfélags þar sem menn þurfa að eiga viðskipti við ókunnuga |
Þetta er umhugsunarverð ábending hjá Atla sem gefur tilefni til að skoða hvað frjálshyggja er eiginlega. Frjálshyggjan – formleg réttindi eins og atvinnufrelsi og eignarréttur – er nauðsynlegt en ekki nægjanlegt skilyrði fyrir góðu þjóðfélagi. Frjálshyggjan er engin trygging fyrir góðum árangri en hún opnar leiðina og gefur mönnum tækifæri til að reyna sig í viðskiptum við ókunnuga. Á þetta hafa frjálshyggjumenn sjálfsagt ekki lagt næga áherslu og fyrir vikið hljómar frjálshyggja oft eins og kerfi sem skila á ákveðinni niðurstöðu: hagvexti og stærri hamborgurum.
Frjálshyggjan er hins vegar alls ekki fullbökuð og skreytt hnallþóra sem markaðurinn mun sjá um að skera niður í bita handa hverjum og einum. Frjálshyggjan leggur aðeins til aðstöðuna og við getum aðeins vonað að fyrsta kakan verði svo góð eða vond að menn baki fleiri.
Atli telur einnig að draga meiri lærdóm af reynslunni:
Stóra samfélagið er ekki skipulagt, þróun þess er ekki stjórnað. Það nær nú út yfir öll landamæri og er í vaxandi mæli alþjóðlegt. Hvað sem menn halda um stjórnmál innan einstakra landa eða héraða munu flestir sammála um að alþjóðaviðskipti stuðli að hagsæld og grundvöllur þeirra sé formlegar reglur um eignarrétt og samninga. Sumir halda að svokölluð alþjóðavæðing sé ný af nálinni en mestalla nítjándu öld var frjálshyggja ríkjandi stjórnmálastefna í Vestur-Evrópu og Norður-Ameríku. Á þessum tíma streymdu fjármagn og vinnuafl óhindrað milli landa og það var hægt að ferðast um Evrópu án vegabréfs. Vesturlönd þróuðust í átt að stóru samfélagi sem byggðist á reynsludyggðum og því stranga réttlæti sem Hume fjallar um og krefst þess að menn virði eignarrétt og standi við samninga. Aldrei fyrr né síðar hafa lífskjör fólks í þessum heimshluta batnað jafn mikið og aldrei hefur verið jafn lítið um stríð og blóðsúthellingar í Evrópu. |
Atli segir svo að evrópskir menntamenn hafi í byrjun tuttugustu aldar snúið baki við frjálshyggjunni . „Með uppgangi fasisma og kommúnisma á fyrri hluta tuttugustu aldar varð hlé á þróuninni í átt til alþjóðlegs markaðar og stórsamfélags sem byggði á reynsludyggðum og formlegum réttindum. Nú hefur þráðurinn verið tekinn upp aftur.“
Af jarðlegum skilningi fæst sem fyrr segir í Bóksölu Andríkis sem sendir allar bækur heim að dyrum kaupenda.