Þ eir eru virkilega öfundsverðir sem eiga eftir að lesa Birtíng Voltaires fyrsta sinn en að sama skapi hafa þeir farið á mis við mikið. Hið íslenska bókmenntafélag gaf Birtíng út í þýðingu Halldórs Laxness fyrir rúmum þrjátíu árum. Lestur bókarinnar er óborganleg skemmtiferð. Við bókarlok veit lesandinn eiginlega ekki hvað gerðist og það er býsna skemmtileg tilfinning eftir bóklestur.
Það sem er svo mikilvægt við Birtíng er að hann kennir mönnum að kasta frá sér fyrirfram gefnum skoðunum. Þeir sem lesa Birtíng hljóta að vissu marki að láta af þeim leiða vana að bera virðingu fyrir mönnum eftir stöðu þeirra og kenningum eftir útbreiðslu þeirra. Annars hafa menn talið sig skilja bókina til hlítar, sem var örugglega ekki ætlun hins margbrotna höfundar. Birtíngur er ein besta handbók byltingarmanna fyrr og síðar en um leið ein alvarlegasta viðvörun sem slíkir menn hafa fengið um að láta gott heita þegar byltingin hefur heppnast. Byltingarmenn í Bandaríkjunum á átjándu öld tileinkuðu sér þessi viðhorf. Í kjölfarið varð lýðræði og einstaklingsfrelsi að veruleika á Vesturlöndum. Hið sama verður því miður ekki sagt um byltingarmenn í röðum landa Voltaires í París 1789.
Hið íslenska bókmenntafélag gaf á dögunum út annað rit Voltaires í röð lærdómsrita félagsins. Hér er um að ræða ritið Zadig eða örlögin. Hér kveður við kunnuglegan tón fyrir lesendur Birtings. Háð og spott um þá sem þurfa virkilega á því að halda að þeir séu ekki teknir of alvarlega. Í kynningu bókmenntafélagsins á Zadig segir:
Zadig eða örlögin er óborganleg satíra um mannlegt samfélag og er saga manns sem fer úr einum stað í eilífri glímu við örlögin, bæði ljúf og grimm. Hið fagra og skemmtilega hefur sárar afleiðingar, hið sorglega er fyndið – tilveran virðist fullkomlega óútreiknanleg. Saman við frásögnina af Zadig og hans kostulegu ævintýrum fléttar Voltaire hárfína gagnrýni á þá heimspeki og hugmyndafræði sem var keppinautur upplýsingarinnar um miðja 18. öldina. |