B
Tjaldstæði keppa ekki aðeins við við önnur tjaldstæði heldur einnig við gistiheimili, hótel og ýmsa aðra þjónustu. |
æjarstjóri Seyðisfjarðar, Tryggvi Harðarson, kvartaði yfir því í fréttatímum ríkisins í gærkvöldi að Ferðamálaráð hefði ekki sýnt „nokkurn skilning“ á því að Seyðisfjarðarkaupstaður ætti að fá styrk til tjaldstæðagerðar úr sjóðum ráðsins. Taldi hann einboðið að pólitík væri að finna í styrkveitingum ráðsins. Tryggvi er vanur stjórnmálamaður, sem auk þess að hafa um árabil verið bæjarfulltrúi Alþýðuflokksins í Hafnarfirði bauð sig fram til formanns í Samfylkingunni fyrir tæpum fimm árum. Ef til vill er það vegna þessa bakgrunns sem honum dettur í hug að pólitík geti blandast inn í úthlutun úr sjóðum hins opinbera. Og auðvitað er það svo að hætta er á því að pólitík blandist inn í styrki sem hið opinbera veitir, sem er vitaskuld ein af ástæðum þess að hið opinbera ætti að veita sem allra minnsta styrki, og helst af öllu enga. Það er hins vegar ekki síður hætta á að annarleg sjónarmið búi að baki þegar maður kemur fram og kvartar yfir því að hafa ekki fengið styrk og telur það vera vegna þess að úthlutunarnefndin hafi „ekki nokkurn skilning“ á því verkefni sem hann vildi fá styrk í. Talsmenn sérhagsmunanna tala mjög gjarnan um að hið opinbera skorti „skilning“ þegar það vill ekki veita fé til ákveðins málefnis. Enginn þeirra heldur því hins vegar fram að hið opinbera hafi of mikinn skilning almennt á hinum og þessum málum og að það ætti að draga úr styrkveitingum sínum.
Í þessu sambandi má segja Einari K. Guðfinnssyni formanni Ferðamálaráðs til hróss, að hann sýnir því skilning að styrkveitingar úr sjóðum ráðsins séu ekki endilega eingöngu til góðs. Einar hafnaði því að pólitík hefði komið nærri úthlutun Ferðamálaráðs, því að tillaga að úthlutuninni hefði komið frá starfsmönnum ráðsins, verið samþykkt óbreytt í stjórn og væri því fagleg. Nú má svo sem margt segja um faglegar úthlutanir hins opinbera og þær geta verið jafn vitlausar og pólitískar úthlutanir. Úthlutanir styrkja frá hinu opinbera geta tæpast nokkurn tímann orðið annað en vitlausar, því að jafnvel þótt góður vilji sé fyrir hendi, skortir þá sem úthluta styrkjunum ævinlega réttar upplýsingar því að þær fást einungis á frjálsum markaði. Hér verður ekki farið nánar út í þetta að sinni, en eins og áður sagði benti Einar K. Guðfinnsson á athyglisverða staðreynd og hún er, að þar sem að „tjaldstæði eru í eðli sínu samkeppnisstarfsemi“ sé styrkur við eitt tjaldstæði stuðningur við það umfram annað, sem auk þess gæti þess vegna verið rekstur á vegum einkaaðila en ekki bæjarfélags.
Það er mikilvægt að stjórnmálamenn átti sig á því að stuðningur við einn bætir ekki aðeins samkeppnisstöðu hans heldur versnar samkeppnisstaða einhvers annars eða annarra um leið. Ef að bæjarfélag Tryggva Harðarsonar hefði fengið 8 milljónir króna af styrk Ferðamálaráðs til að bæta tjaldstæði sín, sem er það sem að Tryggvi fór fram á og hefði verið 20% af öllum styrkveitingum Ferðamálaráðs að þessu sinni, þá missa einhver önnur tjaldstæði spón úr aski sínum. Með bættu tjaldstæði á Seyðisfirði er hætt við að tjald- og húsbílaferðalangar stoppi frekar þar en annars staðar og með styrk væri Ferðamálaráð því að hygla tjaldstæði Tryggva á kostnað annarra tjaldstæða. Og það sem meira er, tjaldstæði eru að einhverju leyti í samkeppni við gistiheimili, hótel og ýmsa aðra þjónustu við ferðamenn og styrkurinn til Tryggva hefði því líka getað skaðað slíkan rekstur.
Hér er þó einnig nauðsynlegt að benda á að það eru ekki einungis tjaldstæði sem eru í samkeppnisstarfsemi, því að flest ef ekki allt keppir við eitthvað annað. Fái byggðasafn á einum stað styrk eru líkur til að ferðamannastraumur þangað aukist og að það sé á kostnað annarra möguleika sem ferðamönnum bjóðast. Það er aldrei svo að hægt sé að veita opinberan styrk án þess að hann skekki stöðu einstaklinga, til dæmis vegna fyrirtækja sem þeir eiga eða vinna hjá eða vegna bæja sem þeir búa í.